Hnýttu í meirihlutann og báðu um sérstakar athafnir

Bæjarfulltrúar minnihlutans í Garðabæ vilja líka fá að vera viðstaddir …
Bæjarfulltrúar minnihlutans í Garðabæ vilja líka fá að vera viðstaddir athafnir á vegum bæjarins. mbl.is/Sigurður Bogi

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Garðabæjar lagði minnihlutinn fram tillögu um að samþykkt yrði sú vinnuregla að eftir að Garðabær hefði haldið opnun, skóflustungu eða upphaf framkvæmda fyrir meirihlutann yrði önnur slík athöfn haldin fyrir minnihlutann.

Ástæðan fyrir því að tillagan var lögð fram er sú að síðast þegar fagnað var við upphaf framkvæmda, við uppbyggingu fjölbýlishúsabyggðar í Breiðamýri á Álftanesi, í byrjun apríl þá var fulltrúum meirihlutans einungis boðið. „Við lásum bara um þetta í Garðapóstinum,“ segir Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans og flutningsmaður tillögunnar, í samtali við mbl.is.

„Venjan er sú að öllum bæjarfulltrúum sé boðið en svo kom þetta atvik upp og til þess að þetta myndi ekki endurtaka sig og til að hnýta aðeins í þau þá setti ég fram þessa tillögu. Ég reikna ekki með að þetta gerist aftur.“

Ingvar segir að miðað við þær útskýringar sem minnihlutinn hafi fengið á því hvernig var boðað til þessa samfundar við Breiðamýri, þá hafi það verið gert á mjög óeðlilegan hátt. „Bæjarstjórinn hringdi í ákveðna bæjarfulltrúa meirihlutans og bað þá um að koma að hitta sig þarna. Svo var einhver opnun framkvæmda og myndataka sem bærinn stóð fyrir.“

Ingvar veit ekki til þess að svona lagað hafa gerst áður, en á staðnum voru þrír fulltrúar meirihlutans að bæjarstjóranum meðtöldum.

Hefðu alveg eins geta hringt í fulltrúa minnihlutans líka

„Hlutverk tillögunnar var líka að láta í ljós óánægju með atvikið. Muni þetta hins vegar endurtaka sig hefur minnihlutinn hugsað sér fleiri skref varðandi vinnureglur sem yrðu þá settar,“ útskýrir Ingvar. Það var því full alvara á bakvið tillöguna, en hún var felld. „Ef meirihlutinn ætlaði að halda áfram svona þá fannst okkur eðlilegt að þetta væri í sitthvoru lagi. Ef þetta væru vinnubrögðin þá væri það tilvalið.“

Ingvar segir meirihlutann hafa gefið lítið fyrir hugmyndir minnihlutans, en bæjarstjórinn hafi gefið þær skýringar að það hafi verið ákveðið í flýti að hóa fólki saman. „Þeir hefðu þá alveg eins geta hringt í okkur líka og við þá tryggt að fulltrúi okkar væri á svæðinu. Eins og stendur í tillögunni þá vill minnihlutinn gjarnan samgleðjast starfsfólki og íbúum á svona tímamótum.“

Ekki hefur reynt á það síðan tillagan var borin upp hvort bæjarfulltrúar minnihlutans verði boðaðir á viðburði, enda verið lítið um slíkt upp á síðkastið vegna ástandsins. „Ég vona að bæjarstjórinn hugsi sig tvisvar um núna áður en hann hringir bara í meirihlutann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert