Inneignarnótur í gjaldþrota fyrirtækjum einskis virði

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir því harðlega að velta eigi lausafjárvanda fyrirtækja á herðar neytendum eins og gert er ráð fyrir í efnahagsaðgerðum stjórnvalda, að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum.

Bent er á að í efnahagsaðgerðunum segir meðal annars: „Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.“

Ekki sé í boði að heimilin axli byrðar lausafjárvanda fyrirtækja og inneignarnótur í gjaldþrota fyrirækjum séu einskis virði. Fjölmargir hafi misst viðurværi sitt og geri ráð fyrir því að fá endurgreiðslu eins og lög gera ráð fyrir.

Stjórn Neytendasamtakanna minnir á að neytendur eigi skýlausan rétt á endurgreiðslum og með þessu er áhættunni velt yfir á neytendur. Þá er ekki ólíklegt að með því að breyta lögum afturvirkt geti ríkið skapað sér bótakröfu. Neytendasamtökin hafa margsinnis bent á leiðir sem kæmu bæði fyrirtækjum og neytendum vel og furða sig á að ekki sé á þau hlustað.

Líklega hefur sjaldan verið eins mikilvægt að standa vörð um neytendavernd og telja Neytendasamtökin nær að stjórnvöld tryggðu réttindi neytenda í stað þess að leggja af réttindi sem þeir eiga,“ segir í tilkynningu samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert