Isabel nýr forseti Stúdentaráðs HÍ

Isabel Alejandra Díaz er nýr forseti Stúdentaráðs HÍ.
Isabel Alejandra Díaz er nýr forseti Stúdentaráðs HÍ.

Isabel Alejandra Díaz var í gærkvöld kjörin nýr forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ). Kosningin fór fram á sérstökum kjörfundi ráðsins í gegnum fjarfundabúnað en Isabel mun formlega taka við stöðunni eftir skiptafund sem haldin verður í maí.

Isabel er fyrsti einstaklingurinn af erlendum uppruna til að gegna stöðu forseta Stúdentaráðs frá upphafi, en ættir Isabel má rekja til Mið-Ameríku ríkisins El Salvador. Í desember verður öld liðin frá stofnun Stúdentaráðs HÍ.

Isabel stefnir á að útskrifast með BA gráðu í stjórnmálafræði og spænsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands í júní 2020. Isabel hefur starfað hjá Endurmenntun HÍ samhliða námi, þar áður hjá UNICEF og var verkefnastýra Tungumálatöfra 2017-2018, sumarnámskeiðs fyrir tví- og fjöltyngd börn á Ísafirði. Þá útskrifaðist Isabel frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 2016 og hlaut verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn í tungumálum, segir í tilkynningu.

Isabel var í 1. sæti á framboðslista Röskvu í kosningum meðal stúdenta til háskólaráðs HÍ og hlaut hún kjör með flest greidd atkvæði nú í mars sl. Hún mun því sitja í háskólaráði samhliða störfum sínum sem forseti Stúdentaráðs. Isabel hefur setið sem varafulltrúi í Stúdentaráði og sviðsráðum síðastliðin tvö ár. Starfsárið 2018-2019 sinnti hún stöðu varafulltrúa á Hugvísindasviði og síðastliðið ár á Félagsvísindasviði. 

Á kjörfundi voru einnig kjörnir eftirfarandi fulltrúar á Réttindaskrifstofu SHÍ:

Varaforseti: Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir 

Hagsmunafulltrúi: Mikael Berg Steingrímsson

Lánasjóðsfulltrúi: Sara Þöll Finnbogadóttir 

mbl.is