Verkfallsréttur ekki takmarkaður vegna veirunnar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að það hafi alltaf …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að það hafi alltaf staðið til að hefja verkfallsaðgerðir að nýju við afléttingu eða mildingu samkomubanns. mbl.is/Hari

„Það var alltaf ljóst að verkfallsaðgerðir myndu hefjast aftur þegar samkomubanni yrði aflétt eða mildað,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is. 

Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun um 300 félagsmanna Eflingar sem starfa í Hveragerði, Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Ölfusi, hefst á morgun, en henni var frestað 25. mars vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Verði vinnustöðvunin samþykkt hefst verkfall 5. maí, degi eftir að takmarkanir vegna samkomubanns verða mildaðar.  

Í tilkynningu sem samninganefnd Eflingar sendi frá sér af því tilefni sagði að aðgerðir myndu hefjast að nýju þegar far­ald­ur­inn hef­ur gengið yfir og að ein­dreg­inn stuðning­ur meðal fé­lags­manna væri fyr­ir því.

Ekki hægt að saka Eflingu um ábyrgðaleysi

Sólveig Anna telur að stéttarfélagið sé ekki að fara of snemma af stað og sá félagið ekki ástæðu til að ráðfæra sig við almannavarnir vegna fyrirhugaðrar vinnustöðvunar. „Enda hefur ekki komið neitt frá yfirvöldum um það að verkfallsréttur vinnandi fólks hafi verið takmarkaður sökum covid. Aftur á móti er mikilvægt að það komi fram að Efling hefur í einu og öllu farið eftir öllum tilmælum frá sóttvarnayfirvöldum frá því að fyrsta tilfelli covid greindist á Íslandi. Það er ekki hægt að saka okkur um ábyrgðaleysi,“ segir Sólveig. 

Lögbundnir samningafundir sem ríkissáttasemjari boðar á tveggja vikna fresti hafa farið fram en þeir hafa ekki skilað neinu að sögn Sólveigar. „Staðan er alveg óbreytt, það hefur ekki verið neinn vilji til að ræða málið af nokkurri alvöru af viðsemjendum okkar. Þeirra afstaða er því miður forhert gagnvart þessum hópi.“

Einföld og „í raun hófstillt krafa“

Spurð nánar út í tímasetningu vinnustöðvunar nú þegar rúmlega 50 þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá að fullu eða hluta segir Sólveig að krafa Eflingar sé hófstillt og hafi nú þegar verið samþykkt af Reykjavíkurborg og ríkinu. 

„Þarna erum við að fjalla um hóp fólks, mest megnis kvenna eða 80%, sem á ensku hafa verið kölluð „essential workers,“ þetta eru nauðsynlegir starfsmenn og þarna erum við að fara fram á einfalda og í raun hófstillta kröfu. Ábyrgðin hlýtur alfarið að liggja hjá viðsemjendum okkar og ég vona að þau séu búin að horfast í augu við það á undanförnum vikum hversu mikilvægir starfsmenn þetta eru og hversu svívirðilegt það er að vilja ekki ljúka þessu á virðingarverðum forsendum.“

Sólveig Anna telur það mjög líklegt að verkfallsboðunin verði samþykkt en atkvæðagreiðsla hefst á morgun og lýkur klukkan 16 á mánudag. Vinnustöðvunin, ef samþykkt, hefst 5. maí og er ótímabundin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert