Tekist á um ritstýringu fjölmiðla

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Miðflokksins, furðaði sig á skipan starfshóps …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Miðflokksins, furðaði sig á skipan starfshóps þjóðaröryggisráðs og útlhlutun fjármagns til fjölmiðla.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, furðaði sig á því að þjóðaröryggisráð hafi ekki komið saman vegna kórónuveirufaraldursins, hins vegar hefði verið skipaður starfshópur til að kortleggja og sporna gegn upplýsingaóreiðu vegna hennar. 

„Það er skuggalegt ef íslensk stjórnvöld ætli að skipta sér af með þessum hætti,“ sagði Sigmundur um skipan starfshópsins. Að hans mati eru fá mál sem almenningur er jafn upplýstur um og staða kórónuveirufaraldursins hér á landi og vísaði hann til daglegra upplýsingafunda almannavarna þar að lútandi. 

„Þetta er sérstakt áhyggjuefni í tengslum við það sem ríkisstjórnin leggur til um útfærslu til framlaga til fjölmiðla,“ sagði Sigmundur. 

Hlutverk starfshópsins að fræða og kortleggja ekki ritstýra

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók fram að Þjóðaröryggisráðið hafi fundað í upphafi kórónuveirufaraldursins. Hún sagði jafnframt brýnt að kortleggja þyrfti upplýsingaóreiðu um veiruna og vísaði til falsfrétta sem hefðu fengið mikið rými m.a. á samfélagsmiðlum í öðrum ríkjum.

„Við erum að sjá ýmis dæmi til dæmis í nágrannaríkjum okkar um fréttir sem ekki standast skoðun í nágranna ríkjum okkar,“ sagði Katrín. Að því sögðu telur hún starf hópsins mikilvægt. 

„Ekki hafa áhyggjurnar minnkað við að heyra þetta,“ sagði Sigmundur við svar Katrínar. „Er það hlutverk stjórnvalda að ritskoða,“ sagði hann og spurði hvort almenningi væri ekki treystandi til að fylgjast með og draga sínar eigin ályktanir. 

Hann sagði þetta áhyggjuefni sérstaklega í samhengi við þær heimildir sem mennta- og menningarmálaráðherra hafi fengið í reglugerð við útdeilingu fjármagns til fjölmiðla. „Mér finnst þetta alveg með ólíkindum,“ sagði Sigmundur. 

Katrín ítrekaði að það væri ekki samsem merki milli þess að skipa starfshópinn og að stjórnvöld hyggist ritstýra fjölmiðlum. Þvert á móti. Starfshópurinn hefur það hlutverk að fræða og meta umfang falskra frétta.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert