Fimm tilvik heimilisofbeldis á einni viku

mbl.is/Kristinn Magnússon

Karl­maður á sex­tugs­aldri sem setið hef­ur í gæslu­v­arðhaldi frá 2. apríl, eða frá því krufn­ing á líki eiginkonu hans leiddi í ljós að and­látið hefði lík­lega borið að með sak­næm­um hætti, verður áfram í gæslu­v­arðhaldi til 20. maí. Fimm tilvik heimilisofbeldis á Suðurnesjum komu upp í vikunni.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist gæsluvarðhaldsins á grundvelli almannahagsmuna. Rannsókn málsins miðar þokkalega, að sögn lögreglustjórans á Suðurnesjum, en embættið bíður eftir gögnum að utan. 

„Tilfellum heimilisofbeldis [á Suðurnesjum] hefur því miður fjölgað,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Fimm tilvik heimilisofbeldis komu inn á borð lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni.

Spurður hvort það séu óvenju mörg tilvik segir Ólafur Helgi: „Eitt tilvik er alltaf of mikið.“

Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur heimilisofbeldi aukist vegna þeirrar einangrunar sem faraldur kórónuveirunnar hefur í för með sér. 

Heimildir mbl.is herma að þrengt hafi verið að öndunarvegi konunnar. Ólafur segir að enn sé beðið eftir endanlegri niðurstöðu krufningarskýrslu.

Ætt­ingi kon­unn­ar til­kynnti andlát henn­ar að kvöldi 28. mars. Rann­sókn­ar­lög­reglumaður fór þegar ásamt lækni og presti á staðinn. Ekk­ert á vett­vangi benti til þess að eitt­hvað sak­næmt hefði átt sér stað. Sama máli gegndi um líkskoðun á sjúkra­stofn­un. Síðar leiddi krufn­ing í ljós að and­lát henn­ar hefði lík­lega borið að með sak­næm­um hætti og var eiginmaður hennar þá handtekinn. Konan var einnig á sextugsaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert