Sendiherra segir svar ráðuneytisins hálfsannindi

Utanríkisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel, segir viðbrögð yfirstjórnar utanríkisþjónustunnar að fara með starfsmannamál í fjölmiðla koma flatt upp á sig, en eftir umfjöllun Morgunblaðsins í morgun um að Gunnar hefði verið kallaður heim tjáði ráðuneytið sig um ástæður þess að Gunnar var fluttur til. Segir hann þá tilkynningu þó aðeins hálfsannindi.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í morgun kom fram að Gunnar hefði gert alvarlegar athugasemdir við drög að lögum ut­an­rík­is­ráðherra um breyt­ing­ar á skip­un sendi­herra. Sagði ráðuneytið hins vegar við Rúv fyrr í dag að ástæða flutningsins væri að Gunnar hefði beðist undan flutningi á nýja skrifstofu og væri því á heimleið.

Ráðuneytið fer með „hálfsannindi og leiðandi umfjöllun“

Í samtali við mbl.is segir Gunnar að það komi í fyrsta lagi flatt upp á sig að utanríkisþjónustan fari beint með mál starfsmanna sinna í fjölmiðla án þess að rætt hafi verið við sig eða honum gefinn kostur á að sjá þau svör sem átti að veita fjölmiðlum um hans mál. Þannig hafi hann ekki viljað að þetta væri fjölmiðlamál, en sæi sig nú knúinn til að bregðast við eftir að ráðuneytið færi með „hálfsannindi og leiðandi umfjöllun“.

Byrjaði með lokun sendiráðsins vegna faraldursins

Segir Gunnar að þetta mál sé í raun tvíþætt og megi rekja til þess þegar kórónuveirufaraldurinn fór að stinga sér niður í nærumhverfi hans í Brussel og hringurinn hafi farið að þrengjast. „Þá sá ég ástæðu til að grípa til aðgerða til að halda sendiskrifstofunni í rekstri,“ segir hann, auk þess sem hann hafi viljað geta tryggt grundvallarrekstur þess samkvæmt lögum og vernda starfsfólkið.

Hann hafi því lokað skrifstofunni og sent starfsfólkið heim og beðið það um að vinna í fjarvinnu. Hann hafi sent skilaboð þess efnis til Íslands og beint þeim tilmælum til ráðuneyta á Íslandi að senda ekki fólk á fundi í Brussel. Ef það gerði slíkt væri fólkið á eigin ábyrgð og að hann treysti sér ekki til að taka á móti því.

Fékk aðfinnslur frá ráðuneytinu og átti svo að fara til Indlands

Gunnar segir að hann hafi fengið aðfinnslur við þessu frá ráðuneytinu og sagt að þessar ráðstafanir gengju of langt. Hann hafi þá sent bréf til baka og spurt hvort ráðuneytið myndi taka ábyrgð á afleiðingum þess ef hann myndi draga aðgerðir sínar til baka. Við því fékk hann ekkert svar, en var stuttu síðar tilkynnt símleiðis að flytja ætti hann frá Brussel til Indlands.

Í símtalinu, sem var við Sturlu Sigurjónsson ráðuneytisstjóra, hafi hann staðnæmst við að hefja ætti flutning í miðjum faraldri og þegar Belgía væri að ráðast í útgöngubann. Þá teldi hann að viðbrögð þróunarríkja gætu verið lítið og sagði hann Sturlu að hann treysti sér ekki til að fara til Indlands af fjölskylduástæðum. Var ítrekað við hann að það væri að beiðni ráðherra að hann ætti að flytja.

Ekki í samræmi við starfsvenjur

Gunnar segir þetta ekki hafa verið í neinu samræmi við starfsvenjur sem verið hafi í utanríkisþjónustunni, en hann þekkir þar vel til. Hefur unnið í utanríkisþjónustunni í 35 ár og sem sendiherra í 30 ár. Venjulega hafi verið rætt við fólk fyrst til að skoða mögulega áfangastaði.  Til viðbótar við það segir Gunnar að venjulega sé sendiherrum tilkynnt um flutning í árslok svo þeir geti undirbúið flutning á miðju ári. Samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins átti Gunnar að flytja til Indlands 1. september.

Eftir þetta komu svo fram drög að frumvarpi Gunnlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um skipun sendiherra. Gunnar var með umfangsmiklar athugasemdir við frumvarpið. „Eftir að hafa kynnt mér frumvarpið gat ég ekki látið slíkt frumvarp fara í umferð nema að ég og vonandi mínir kollegar hefðu tækifæri til að gera athugasemdir,“ segir Gunnar. „Ég taldi þetta skaða störf þessa starfsvettvangs sem ég hef helgað mig í 35 ár.“

Flutningi flýtt um tvo mánuði

Þann 14. apríl barst Gunnari svo annað bréf frá ráðuneytinu þar sem honum var kunngert að hann ætti að fara frá Brussel tveimur mánuðum fyrr, í byrjun júlí í staðinn fyrir byrjun september og koma til starfa í ráðuneytinu. Engar skýringar hafi fylgt með að hans sögn, en að þetta ætti rætur að rekja til þess að hann hefði hafnað því að fara til Indlands.

Spurður hvort æðstu stjórnendur ráðuneytisins eða ráðherra hafi rætt við hann út af athugasemdum sínum við frumvarpið segir Gunnar svo ekki vera. „Það er leiðinlegt að þetta fór svona,“ segir hann og bætir við: „Ég hafði vonast til þess að þetta yrði tekið fyrir af yfirstjórn ráðuneytisins en yrði ekki að fjölmiðlamáli. Svo ákveða þeir að fara með þetta mál í fjölmiðla. Það er einhver stífla í gangi í ráðuneytinu,“ segir Gunnar.  

„Ég tel staðreyndirnar segja sína sögu“

Aðspurður hvort verið sé að refsa honum fyrir ákvörðun sína um að loka sendiráðinu segir Gunnar að hann viti það ekki. „Það hefur enginn útskýrt af hverju þetta þarf að vera svona.“ Segir hann að hver og einn verði að draga sínar ályktanir af þróun málsins, en að hann treysti sér ekki til að vera með getgátur og vilji ekki gera ráðherra upp neinar sakir. „En ég tel staðreyndirnar segja sína sögu.“

Útgöngubann gildir í Belgíu til 4. maí, en dánartíðni vegna sjúkdómsins í landinu er með því hæsta í Evrópu. Gunnar segir að engir flutningar séu mögulegir í þessu ástandi, en ef það losni um hömlur þá sjái hann ekki fram á annað „en að fara með fyrstu skipum heim.“

„Utanríkisþjónustan er stærri en við öll

En hvernig verður að snúa aftur í ráðuneytið eftir þessi samskipti? Gunnar segir að það verði ekki vandamál. „Utanríkisþjónustan er stærri en við öll sem störfum fyrir hana. Stærri en ég og ráðherra. Við erum að starfa fyrir Ísland,“ segir Gunnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert