Ég fæddist miðaldra

Edda Hermannsdóttir gaf nýlega út bókina Framkoma og segir einn …
Edda Hermannsdóttir gaf nýlega út bókina Framkoma og segir einn tilganginn með bókinni vera að efla konur til dáða. Hún segir að konur séu ragari við að láta í sér heyra þótt það hafi mikið breyst á síðustu árum. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Edda Hermannsdóttir hefur verið ákveðin allt frá barnaæsku, en sjö ára hitti hún blóðföður sinn, Hemma Gunn, á Ráðhústorginu og sagðist vera dóttir hans. Edda varð ung móðir, lærði hagfræði, var kynnir í Gettu betur, var aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðins og er nú markaðsstjóri Íslandsbanka. Hún er trúlofuð Ríkharði Daðasyni sem fór á skeljarnar í brúðkaupi við mikinn fögnuð gesta. Edda skrifaði bókina Framkoma sem kom út í síðustu viku.

Maðurinn í sjónvarpinu

Edda er er alin upp á Akureyri en bjó í Danmörku fyrstu æviárin. Foreldrar hennar, Eiður Guðmundsson og Emilía Jóhannsdóttir, eru að norðan og þar bjó Edda þar til hún kláraði menntaskóla.
„Og hef ekki snúið til baka síðan þótt hluti af hjartanu sé alltaf þar,“ segir Edda.
„Hemmi Gunn er pabbi minn en Eiður ól mig upp og ég kalla hann pabba,“ segir Edda en hún var aðeins sex mánaða þegar móðir hennar kynntist Eiði.
„Ég vissi alltaf að ég ætti annan pabba en brá eðlilega mikið þegar ég vissi að það væri maðurinn í sjónvarpinu, en ég var orðin aðdáandi hans áður en ég vissi það. En ég var aldrei mjög upptekin af þessu sem krakki; ég var alltaf í mínum huga dóttir Eiðs. Ég hitti Hemma aðeins á yngri árum en eftirminnilegast er þegar hann kom norður með Bylgjulestinni og ég fór þá niður í bæ og vatt mér að honum og spurði hann hvort hann myndi ekki eftir mér, ég væri nú dóttir hans. Honum brá mjög mikið. Þarna var hann á Ráðhústorginu að skemmta þegar ég, lítil frökk stúlka, kom til hans með þessa spurningu. En hann tók mér ofsalega hlýlega þegar hann áttaði sig á því hver ég væri,“ segir Edda en þess má geta að hún er ein sex barna Hermanns Gunnarssonar.

Að geta borðað kökur

Systkinum sínum fimm, samfeðra, kynntist hún í raun mun fyrr, því um fjórtán, fimmtán ára aldur hafði hún samband við þau í gegnum tölvupóst þar sem hún sagðist vera systir þeirra.
„Ég var mjög frökk í því að finna og kynnast systkinum mínum og þá sérstaklega systrum mínum. Við gerum oft grín að því í dag að besta leiðin til að kynnast fólki er að senda því póst og segjast vera systkini þess. Ég á þrjár systur og við erum ofboðslega nánar og miklar vinkonur. Svo var gaman að sjá hvað við eigum margt sameiginlegt. Mér fannst ég verða rosalega rík að kynnast þessu fólki sem maður deilir föður með, þótt við höfum ekki alist upp saman,“ segir hún.

„Ég og Eva Laufey höfum farið mjög svipaðar leiðir í lífinu; vorum báðar formenn nemendafélagsins í menntaskóla, fórum út í stúdentapólitík og fjölmiðlar heilluðu okkur báðar snemma. Svo höfum við líka báðar ástríðu fyrir kökubakstri. Ég er langt í frá jafn góð í eldhúsinu og hún en ég deili þeirri ástríðu. Við tölum mikið um bakstur og kökur,“ segir hún og brosir.
„Við erum líka miklir nautnaseggir. Þegar við fórum saman í einkaþjálfun vorum við spurðar hvert okkar markmið væri. Við sögðum það vera að geta borðað meira af kökum. Einkaþjálfarinn vildi ekkert meira með okkur hafa,“ segir Edda og hlær.

Ólétt og fótbrotin í beinni

Þegar Edda var í hagfræðinni var boðið upp á áfanga hjá RÚV sem sneri að því að búa til þátt tengdan náminu.
„Ég hitti þá Sigrúnu Stefánsdóttur, þáverandi dagskrárstjóra, sem opnaði námskeiðið. Þá var ég ólétt að syni mínum og gerði ég þátt um heilbrigði og óléttu og eftir það fékk ég tilboð að koma í prufu í starf kynnis í Gettu betur. Ég fékk svo starfið en ég benti Sigrúnu á að ég ætti von á barni á svipuðum tíma og þátturinn ætti að hefja göngu sína. Það er mér mjög minnisstætt hvernig hún tók á því; henni fannst það ekki tiltökumál. Það væri ekki sjúkdómur að eignast barn og við myndum leysa það þegar að því kæmi og ég er henni mjög þakklát í dag fyrir að hafa hvatt mig áfram í þetta. Ég átti svo son minn og fyrsta viðtalið í tengslum við þáttinn var tveimur dögum eftir fæðingu. Svo byrjaði þátturinn mánuði seinna. Ég var þarna með nýfætt kríli, hafði aldrei verið í sjónvarpi, allt í einu komin í beina útsendingu í Gettu betur. Svo var ég fótbrotin í þokkabót eftir að hafa dottið um rúmið heima. Það er eins gott að maður hafði smá húmor fyrir þessari stórundarlegu stöðu.“ 

Að leiða fólk saman

Edda segir að vinnan við Gettu betur hafi heldur betur kveikt áhuga hennar á fjölmiðlum og að koma fram þótt áhuginn hafi lengi blundað í henni.
„Þegar ég var í menntaskóla var ég líklega búin að sækja um í Kastljósi tvisvar, þannig að áhuginn var alltaf til staðar. En svo var ég auðvitað komin með próf í hagfræði og vildi nýta það þannig að þegar ég fékk tilboð að koma á Viðskiptablaðið fannst mér ég geta sameinað þetta tvennt. En ég fékk eins og margar konur þekkja „imposter syndrome“. Spurði mig af hverju ég væri þarna, ég sem kynni svo lítið. Mér fannst ég að sumu leyti læra meira á Viðskiptablaðinu heldur en í náminu og þetta var gríðarlega skemmtilegur og áhugaverður tími. Ég var þarna í þrjú ár og síðasta árið var ég orðin aðstoðarritstjóri,“ segir Edda og hún segir að á þessum tíma hafi áhuginn á jafnrétti kynjanna aukist.

„Ég hitti Hemma aðeins á yngri árum en eftirminnilegast er …
„Ég hitti Hemma aðeins á yngri árum en eftirminnilegast er þegar hann kom norður með Bylgjulestinni og ég fór þá niður í bæ og vatt mér að honum og spurði hann hvort hann myndi ekki eftir mér, ég væri nú dóttir hans,“ segir Edda. mbl.is/Ásdís

„Við vorum fáar stelpur að vinna þarna á Viðskiptablaðinu og konur voru sjaldnar viðmælendur í blaðinu þar sem fáar konur skipuðu æðstu stöður fyrirtækja og embætti á þessum tíma. Við vorum því markvisst að reyna að fjölga konum í blaðinu og auka fjölbreytileika. Þarna kviknaði áhugi minn á að efla konur og hvetja þær til að koma fram.“ 

Edda nefnir að í aðstoðarritstjórastarfinu hafi falist að leiða hópinn og taka nýjar stefnur í starfinu.
„Mér finnst gaman að leiða fólk saman í alls kyns verkefnum. Að ná fólki saman, breyta hlutum sem eru formfastir og koma með nýjungar,“ segir hún.

„Svo hef ég alltaf verið fullorðin í mér. Það er gert grín að því að ég sé fædd miðaldra. Ég var yngst á blaðinu en velti því aldrei fyrir mér og ég held að samstarfsfélagarnir sem ég vann með hafi ekki gert það heldur,“ segir hún.

Að efla konur

Bókin Framkoma kom í hillurnar í vikunni en í henni má finna ýmsan fróðleik um greinaskrif, ræðumennsku, fundarstjórn og framkomu, svo fátt eitt sé nefnt. Í bókinni eru einnig yfir tuttugu viðtöl við reynslumikið fólk sem gefur góð ráð, en Edda hefur lengi haft í huga að gefa út þessa bók.
„Þetta var mikil vinna en ég var búin að safna efninu saman um nokkurra ára skeið. Ég var strax byrjuð að taka niður punkta þegar ég vann við fjölmiðla og síðan héldum við Eva Laufey námskeið um framkomu fyrir konur, þannig að ég átti mikið efni til,“ segir hún.
„Einn tilgangurinn með þessari bók var að efla konur til dáða. Konur eru ragari við að láta í sér heyra þótt það hafi mikið breyst á síðustu árum. En ég held að það sé vettvangur fyrir konur að skrifa meira og vera meira áberandi með það sem þær kunna. Ég myndi vilja hvetja konur til að vera ófeimnari að láta heyra í sér og segja sínar skoðanir. Stundum erum við of varkárar. Við þurfum að setja markið hátt og stefna að því. Bókin getur vonandi hjálpað fólki til þess.“

Leynilegt stefnumót

Núverandi sambýlismaður og unnusti Eddu er Ríkharður Daðason hagfræðingur, en Edda og barnsfaðir hennar skildu eftir tólf ára samband árið 2014. Börnin, Emilía og Sigurður Halldórsbörn, eru tólf og níu ára og fósturdóttirin, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, er fjórtán. Edda og Ríkharður urðu par árið 2017.
Var þetta ást við fyrstu sýn?
„Nei, ætli það en það kom nú ansi fljótt. Hann hafði samband við mig og vildi bjóða mér í kaffi en það tók mig smátíma að samþykkja það. En hann var mjög þolinmóður og loksins fórum við á stefnumót og höfum verið föst saman síðan.“
Fóruð þið á kaffihús?
„Nei, við fórum og náðum í KFC! Ég vildi fara á mjög leynilegt stefnumót og hann mátti fara að sækja KFC. Það var kannski ekki hefðbundið rómantískt,“ segir hún og skellihlær.

Börnin þrjú, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Emilía og Sigurður Halldórsbörn eru hér …
Börnin þrjú, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Emilía og Sigurður Halldórsbörn eru hér með foreldrunum Ríkharði og Eddu á góðri stundu. Ljósmynd úr einkasafni.

Edda og Ríkharður trúlofuðu sig nokkuð óvænt í brúðkaupi hjá Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur og Hauki Inga Guðnasyni sem haldið var á Ítalíu í fyrrasumar.
„Hann var búinn að hugsa þetta; að fara að henda sér á skeljarnar, en það átti nú ekki að gerast þarna. Í lok veislunnar ætlaði Ragnhildur að kasta brúðarvendinum og það byrjaði einhver brandari með það að ég ætti að grípa hann. Mér fannst þetta mjög amerískt og bíómyndalegt en hugsaði, hver skrambinn, ég hendi mér í þetta! Tók tilhlaup og greip vöndinn og fólk fór að syngja nafnið hans Rikka. Það myndaðist rífandi stemning og hann skellti sér á skeljarnar þarna á staðnum. Og ég sagði að sjálfsögðu já. Sveppi klappaði Rikka á bakið og sagðist geta komið honum út úr þessu daginn eftir, en það hefur ekki orðið ennþá,“ segir hún og hlær.

Ítarlegt viðtal er við Eddu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert