Fjölmiðlafrumvarpið orðið „framtíðarmál“

Í fjölmiðlafrumvarpi sem hefur tafist vegna kórónuveirufaraldursins var gert ráð …
Í fjölmiðlafrumvarpi sem hefur tafist vegna kórónuveirufaraldursins var gert ráð fyrir að 400 milljónir færu úr ríkissjóði í endurgreiðslu á rekstrarkostnaði til fjölmiðla. Þessar 400 milljónir verða nú í staðinn nýttar í eingreiðslu til fjölmiðla, en frumvarpið er sagt „framtíðarmál.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef fram fer sem horfir fara 350 af þeim 400 milljónum sem gert var ráð fyrir að nota í fyrirhugað fjölmiðlafrumvarp í staðinn í eingreiðslu til fjölmiðla vegna heimsfaraldurs. Að tryggja frumvarpinu aftur fé, er því „framtíðarmál“ samkvæmt formanni fjárlaganefndar.

„Eins og málin koma inn í þingið núna er það hugmyndin að nýta þessar fjögur hundruð milljónir sem ætlaðar voru í fjölmiðlafrumvarpið, sem liggur inni í allsherjar- og menntamálanefnd,“ segir Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, aðspurður hvernig umrædd eingreiðsla hins opinbera til fjölmiðla verður fjármögnuð.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknar og formaður fjárlaganefndar.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknar og formaður fjárlaganefndar. mbl.is

Eingreiðslan hljóðar upp á 350 milljónir og óljóst hefur verið hvaðan fjármagnið verði tekið, þ.e. hvort skapað verði nýtt svigrúm í fjáraukalagafrumvarpi, sem ekki stefnir í, eða hvort fjármagnið sem ætlað var í fjölmiðlafrumvarpið verði nýtt í þessa sérstöku aðgerð.

Orð Willums staðfesta það sem Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar hefur sagt við mbl.is, um að 350 milljóna eingreiðslan virðist ætla að vera dregin af því sem átti þegar að fara til fjölmiðla vegna frumvarpsins. Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, hélt því á hinn bóginn fram að eingreiðslan myndi bætast við styrkinn sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu, en af orðum Willums að dæma hefur engin fjárheimildabeiðni um 350 milljónirnar verið lögð fram, sem gæfi það til kynna að 400 milljónirnar yrðu látnar vera.

Willum segir þó ekkert útiloka að þessi fjárheimildabeiðni komi fram og að þá verði hægt að gera ráð fyrir 350 milljónunum í fjáraukalagafrumvarpi sem liggur fyrir þinginu. Til að byrja með segir Willum að þessi háttur virðist munu vera hafður á, að fjármagnið verði sótt í það sem ætlað var fjölmiðlafrumvarpinu, en að síðan sé það „framtíðarmál“ að tryggja fjármagn fyrir frumvarpið á nýjan leik. Mestu varði að tryggja björgun fyrir kórónutímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert