Flokkaði kynlífstæki í Sorpu eftir plokk

Í kassanum kenndi ýmissa grasa.
Í kassanum kenndi ýmissa grasa. Ljósmynd/Auður Sturludóttir

Einmana kynlífstækjakassi fannst í Vatnsmýrinni í gær þegar samviskusamir landsmenn plokkuðu rusl á Plokkdeginum. Auður Sturludóttir var þá að plokka með dóttur sinni Sunnu og vinkonu sinni Hrönn þegar Sunna rakst á fenginn. 

„Hún kallaði til okkar: „ég fann kassa með kynlífstækjum“ og við Hrönn vorum mjög hissa því það hljómaði einhvern veginn frekar ósennilegt,“ segir Auður. 

Auður fór svo í heldur spaugilega för á Sorpu þar sem hún sturtaði úr kassanum og fór að flokka. „Ég sturtaði öllu á planið í Sorpu og flokkaði plast, rafmagnstæki og annað rusl á rétta staði,“ segir Auður og hlær. 

„Ég er mikill umhverfissinni og ég vildi flokka þetta en mig langaði það samt voðalega lítið í þessu tilviki. Starfsmaðurinn á Sorpu var mjög samviskusamur og sagði mér að flokka allt ruslið.“

„Þetta voru rosaleg tæki“

Auður veltir fyrir sér baksögu kassans, enda erfitt að ímynda sér hvernig heill kassi af kynlífstækjum dagar uppi án eigandans í votri Vatnsmýrinni.

„Þetta voru rosaleg tæki. Ég þurfti alveg að gúgla til þess að átta mig á því hvað þetta væri. Þarna var eitt stórt rafmagnstæki sem ég hélt bara að væri juðari sem maður notar til að slípa borð og svoleiðis.“

Þó atvikið hafi verið heldur fyndið og tækin Auði mjög framandi brýnir hún fyrir fólki að henda ekki kynlífstækjum, frekar en öðru, út í náttúruna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina