Starfshópur um skynsemi

Logi skrifar vikulega pistla í Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Logi skrifar vikulega pistla í Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Dómgreind er stórkostlegt fyrirbæri. Við notum hana til að greina rétt frá röngu, koma í veg fyrir að við lendum í kjánalegum aðstæðum, þegar við kaupum okkur eitthvað og svo mætti lengi telja. Eitt það mikilvægasta er samt að við notum hana þegar við ákveðum hverju við ætlum að treysta.

En við getum farið að slaka á því. Í það minnsta þegar kemur að fréttum því ríkið hefur sett á fót starfshóp um það sem kallað er „upplýsingaóreiða“ á tímum kórónuveirunnar. Þetta hefur líka verið kallað falsfréttir. Sá sem líklega talar þó mest um „fake news“ er forseti Bandaríkjanna.

Í ljósi þess að hann kallar fréttir sem við höfum lengi talið að við ættum helst að treysta falsfréttir, þá liggur nokkurn veginn fyrir að það ber ekki öllum saman um það hvaða fréttir séu réttar og hverjar falskar. Þá er náttúrlega vandi á höndum.

Mögulega er hægt að bregðast við með tvenns konar hætti: Að ríkið skipi starfshóp og segi okkur hvaða fjölmiðlum og fjölmiðlamönnum við ættum helst að treysta (eins og einn fulltrúi í nýskipuðum hóp þjóðaröryggiráðs hefur reyndar þegar gert á samfélagsmiðlum) eða að við reynum að nota okkar eigin dómgreind, skynsemi og jafnvel gagnrýna hugsun.

Mér finnst til dæmis gott að læra sjálfur hvaða miðlum ég get treyst og hverjum ég ætti að sneiða hjá. Traust er nefnilega takmarkað og fjölmiðlar geta verið fljótir að glata því.

Það hefur sennilega alltaf verið þannig að í fjölmiðlum leynast stundum meiningar. Í því samhengi er áhugavert að velta því fyrir sér hvort flokksblöð fyrri ára hafi flokkast undir falsfréttir. Það var í það minnsta ekkert eðlilegur munur á samfélaginu eftir því hver skrifaði.

Svo er líka mjög gott að athuga heimildir, við hverja er talað og hverja ekki. Líka hver heldur þeim á floti á samfélagsmiðlum. Ef skrítni rasíski frændi þinn deilir frétt um sprengjuárásir múslima í Svíþjóð, frá fjölmiðli sem þú hefur aldrei heyrt um, þá eru allar líkur á að þú þurfir að kanna heimildina betur.

Sumir eru svo djúpt inni í bergmálshellinum sínum að þeir treysta ekki neinu sem kemur utan frá. Aðrir eru þannig að þeir trúa sjálfkrafa öllum neikvæðum fréttum. Ég held að hvorugur þessara hópa sé að fara að hlusta á einhvern sem segir þeim hverju á að trúa og hverju ekki.

Ég er þannig að ég vil frekar hafa þessar furðulegu samsæriskenningar um að Bill Gates og Evrópusambandið séu að dreifa veirum með 5g-geislum og setja örflögur í fólk en að byrja að banna fjölmiðla eða setja þá á svartan lista. Frelsi fjölmiðla skiptir meira máli.

Svo verð ég að viðurkenna að ég er ekki að rifna úr spenningi yfir enn einum starfshópnum sem er skipaður til að hafa vit fyrir okkur, þótt þetta sé vafalaust gert af góðum hug og undir þeim formerkjum að það eigi bara að kortleggja umræðuna eins og er svo vinsælt að tala um núna.

En kannski hef ég rangt fyrir mér. Kannski er þetta bráðnauðsynlegt og það sem koma skal til að innleiða almenna skynsemi. Ef til vill er bara tímaspursmál hvenær starfshópur um hvernig eigi að halda sig frá samfélagsmiðlum þegar maður er búinn að smakka það verði skipaður, starfshópur um að spyrja ekki konur hvort þær séu óléttar og síðast en ekki síst starfshópurinn um ríka frænda þinn í Nígeríu sem þú vissir ekki að þú ættir.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert