Strengurinn bætir ástandið mikið eftir óveðrið

Útdráttur hafinn á 66 kv jarðstreng á milli Varmahlíðar og …
Útdráttur hafinn á 66 kv jarðstreng á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Ljósmynd/Landsnet

Vinna Landsnets við útdrátt á 66 kílóvolta jarðstreng á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks er hafin, en strengurinn mun auka afhendingaöryggi á Sauðárkróki mikið. Lenti bærinn illa í því í óveðrinu í vetur, en þá datt rafmagnið út í rúmlega tvo sólarhringa og nokkra daga þar á eftir þurfti að skammta rafmagn í bænum. Ástandið var svo jafnvel lengur að komast í lag í nærliggjandi sveitum.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, segir í samtali við mbl.is að lagningin sé mikið fagnaðarefni. Um er að ræða 20 kílómetra leið og verða þrír einleiðarar lagðir, samtals 60 kílómetrar.

Loftlínan mun áfram fá að standa og með því verður komið á tvöföldu öryggi að sögn Sigfúsar og Sauðárkrókur þannig kominn með örugga tengingu við hringtenginguna bæði vestur og austur frá Varmahlíð.

Það þarf umtalsvert langan streng í Sauðárkrókslínu.
Það þarf umtalsvert langan streng í Sauðárkrókslínu. Ljósmynd/Landsnet

„Með þessum streng er afhendingaöryggið orðið mun meira,“ segir Sigfús, en samkvæmt heimasíðu Landsnets er áætlað að lagningu hans verði lokið á þessu ári. Segir Sigfús að í framkvæmdir hafi hafist í fyrra, meðal annars undirbúningur að línuvegi til að auðvelda framkvæmd. Þá hafi strengurinn verið dreginn yfir Sæmundará, en í ár verði svo stærstur hluti hinna eiginlegu framkvæmdar.

Samhliða þessu verður byggt yfir spennistöðvarnar bæði á Sauðárkróki og í Varmahlíð, en Sigfús segir að í óveðrinu hafi selta á spennuvirkinu á Sauðárkróki valdið miklum vandræðum.

Heildarvegalengd skurðsins verður 20 kílómetrar, en þrír einleiðarar verða lagðir …
Heildarvegalengd skurðsins verður 20 kílómetrar, en þrír einleiðarar verða lagðir þar. Ljósmynd/Landsnet
mbl.is