„Engin önnur leið heldur en þessi“

Ferðamálastofa undirbýr nú markaðsátak þar sem landsmenn verða hvattir til …
Ferðamálastofa undirbýr nú markaðsátak þar sem landsmenn verða hvattir til að ferðast innanlands í sumar. mbl.is/​Hari

Ferðamálastjóri segir nauðsynlegt að nota auglýsingar á samfélagsmiðlum samhliða auglýsingum á innlendum miðlum til þess að herferð Ferðamálastofu, sem ætlað er að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands í sumar, nái tilætluðum árangri.

Hann viðurkennir þó að hugsanlega geti það skotið skökku við að kaupa erlenda þjónustu frá fyrirtækjum sem skili engu til íslensks samfélags þegar verið sé að hvetja landsmenn til þess að kaupa innlenda vöru og þjónustu.

„Það er svo sem rétt, en ætli menn að nota þessa öflugustu fjölmiðla sem til eru þá er engin önnur leið heldur en þessi,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is, en ítrekar að auglýsingar og kynningarefni verði einnig keyrt á hefðbundnum miðlum.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamálastofa er í samstarfi við auglýsingastofuna Brandenburg, sem sér um að skapa umgjörð, efni og aðferðafræði fyrir herferðina, sem nær að hluta til til landsins alls sem áfangastaðar, en stór hluti auglýsinganna og kynningarefnisins mun snúa að einstökum landshlutum og áfangastöðum, og þar leika markaðsstofur landshlutanna stórt hlutverk.

Ekki ætlunin að treysta á ókeypis umfjöllun fjölmiðla

„Nokkuð stór hluti af þessu er tenging í gegnum samfélagsmiðla, en eins og gengur og gerist þá verður þetta keyrt samhliða auglýsingum og kynningarefni á hefðbundnum miðlum,“ segir Skarphéðinn og að það sé alls ekki ætlunin að treysta á ókeypis umfjöllun íslenskra fjölmiðla. „Það er ráðgert að kaupa líka auglýsingapláss í innlendum fjölmiðlum, svo sannarlega, bæði á prenti og á net- og ljósvakamiðlum. Þetta verður allt í bland.“

Skarphéðinn segir að markaðsyfirráð erlendra miðla séu daglegt viðfangsefni ferðaþjónustunnar, enda fari stór hluti bókana fram í gegnum erlendar bókunarsíður sem greiði hvorki skatta né taki á annan hátt þátt í íslensku samfélagi. „Og við þreytumst ekki á að hvetja menn til að reyna að finna leiðir fram hjá þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert