421 flugmaður missir vinnuna

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls missir 421 flugmaður vinnuna sína hjá Icelandair núna um mánaðamótin og tíu til viðbótar missa flugstjórastöðuna sína og verða aðstoðarflugmenn í staðinn.   

Þetta segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Samtals fær 431 flugmaður því uppsagnarbréf af þeim 448 sem eru starfandi hjá Icelandair. Fyrir voru 112 búnir að missa vinnuna, að sögn Jóns Þórs. Alls verður um tvö þúsund starfsmönnum sagt upp hjá flugfélaginu um mánaðamótin. 

Hann segir Icelandair hafa gengið heldur lengra í uppsögnunum en hann hélt fyrir fram, að minnsta kosti miðað við fyrirséða flugáætlun. Hann segir að um varúðarráðstöfun sé að ræða, skorið sé inn að beini og síðan ætli menn að draga uppsagnirnar til baka. „Ég get sagt það sem svo að starfsmenn eru ekki látnir njóta vafans.“

Þeir sem hafa verið lengst í starfi sem flugmenn halda vinnunni, samkvæmt kjarasamningi.

Flugmenn að störfum.
Flugmenn að störfum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Fá tíunda uppsagnarbréfið

Fyrr í dag var haldinn starfsmannafundur í gegnum streymi þar sem ýmsar spurningar brunnu á starfsmönnum varðandi framtíðina. „Við reynum að halda utan um okkar fólk. Það er áfall fyrir fólk að missa vinnuna,“ segir Jón Þór og bætir við að sumir séu að fá sitt fyrsta, annað eða þriðja uppsagnarbréf hjá Icelandair og einhverjir meira að segja sitt tíunda.

Sumir þessara starfsmanna hafa verið í áratugi hjá Icelandair. „Það er mjög gjarnan þannig að félagið hefur sagt flugmönnum upp, jafnvel þótt félagið sé í hagnaði. Mönnum er sagt upp um bláveturinn og menn missa vinnuna í einhverja mánuði og svo eru menn ráðnir aftur,“ greinir hann frá.

13 sagt upp hjá Air Iceland Connect

Í tilkynningu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna kemur fram að auk þess sem 421 flugmanni Icelandair verði sagt upp verði 13 flugmönnum sagt upp hjá Air Iceland Connect um næstu mánaðamót.

„Áður höfðu enn fleiri flugmenn látið af störfum, en tæplega 600 flugmenn störfuðu hjá Icelandair þegar mest var. Þá er enn ótalinn sá hópur sem hafði þegar misst flugstjórastöðu sína og verið færður í sæti flugmanns,“ segir í tilkynningunni. Fram kemur að verkefni Félags íslenskra atvinnuflugmanna sé nú að styðja flugmenn eftir bestu getu.

Ætla að standa af sér höggin 

„Flugiðnaðurinn er slagæð í efnahag og hagkerfi þjóðarinnar, iðnaður sem heldur uppi um 72.000 störfum á Íslandi, beint eða óbeint. Ferðaiðnaður, sjávarútvegur og ótal fleiri atvinnugreinar reiða sig á greiðar og reglulegar flugsamgöngur. Sú mikla umferð sem fer um Keflavíkurflugvöll árlega er afrakstur áratuga vinnu Icelandair til að festa Ísland í sessi sem tengil eða miðpunkt milli heimsálfa (e. hub and spoke system). Sú mikilvæga staða er nú í hættu ef ekki verður gripið inn í með myndarlegum hætti,“ segir í tilkynningunni.

„Flugmenn Icelandair hafa staðið með fyrirtækinu í gegnum súrt og sætt og munu halda því áfram. Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að gera slíkt hið sama, grípa inn í og tryggja áframhaldandi grundvöll reglulegra flugsamgangna milli Íslands og umheimsins. Icelandair þarf jafnframt að vera tilbúið til að rísa hratt upp þegar aðstæður gefa efni til. Við viljum leggja áherslu á að þetta er tímabundið ástand og þrátt fyrir höggin sem dynja á okkur flugmönnum og öðrum stéttum, þá munum við standa þetta af okkur.“

mbl.is