Ekki útilokað að ríkið aðstoði Icelandair

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðningur ríkisins við flugfélagið Icelandair með einhverjum hætti er ekki útilokaður. Félagið þarf að hafa sínar áætlanir og framtíðarsýn áður en til þess kemur. Þetta kom fram í svari  Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi við spurningu Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um það hvort stjórnvöld hefðu plan um að tryggja afkomu Icelandair með einhverjum hætti. 

Katrín tók fram í svari sínu að þær aðgerðir sem stjórnvöld kynntu fyrr í dag munu nýtast Icelandair, það er fram­leng­ingu á hluta­bóta­leiðinni og stuðning úr rík­is­sjóði vegna greiðslu hluta launa­kostnaðar á upp­sagn­ar­fresti.

Oddný sagði brýnt að standa ætti vörð um flugfélagið því mikilvægt væri að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu og staðan væri alvarleg. Hún sagði ennfremur að ríkisstjórnin færi eins og köttur í kringum heita graut þegar staða flugfélagsins væri nefnd á nafn.  

Katrín tók það fram að félagið hafi verið lykilaðili í vexti ferðaþjónustunnar hér á landi. Hún taldi flugfélagið ætti „framtíðina fyrir sér“ og nefndi að félagið væri að fara í hlutfjáraukningu. 

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Hart var sótt að forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum. Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Miðflokksins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar óskuðu eftir frekari upplýsingum um fleiri aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar. 

Sigmundur Davíð óskaði eftir frekari skýringu á því hvers vegna brúarlánin sem kynnt voru til sögunnar fyrir um sex vikum væru ekki enn komin til framkvæmda. Hann spurði ennfremur hver heildarsýnin væri, hvenær væri von á fleiri pökkum og aðgerðum öðrum þeim en að „styðja fyrirtæki í að segja upp fólki“. Hann tók einnig fram að þessi aðgerðapakki sem kynntur var fyrr í dag væri viðbragð við gagnrýni á fyrsta pakkann. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Miðflokksins.

Í næsta mánuði verða kynntar frekari aðgerðir, sagði Katrín. Eins og staðan er núna þá „erum við stödd í miðjum storminum.“ 

Þorgerður Katrín byrjaði á því að hrósa ríkisstjórninni fyrir aðgerðapakkann sem var kynntur í morgun. „Ég fagna því sérstaklega að hún hafi tekið þeirri gagnrýni sem var á þann pakka,“ sagði hún. Jafnframt furðaði hún sig á því af hverju „þessi stóru skref“ væru ekki tekin strax eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í upphafi kórónuveirufaraldursins að þyrfti að gera, betra að taka stærri skef en minni. 

Hún sagði að málin væru hvorki skýr né tilbúin þegar þau væru kynnt til leiks. Hún þráspurði hversu margir aðgerðapakkarnir væru og hvenær þeir yrðu tilbúnir t.d. varðandi húsnæðismál. „Fyrirtæki þurfa skýrari skilaboð. Aðgerðir einkennast af því að fresta greiðslum og taka lán,“ sagði hún ennfremur. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is