„Myndi grafa undan tilveru fjölmiðla“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir enga miðlæga ákvörðun liggja fyrir um …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir enga miðlæga ákvörðun liggja fyrir um hvernig ríkisstofnanir skuli hátta auglýsingum sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðamálastofa stefnir að því að kaupa auglýsingar hjá erlendum samfélagsmiðlum til þess að auglýsa herferð sína í sumar, sem miðar að því að hvetja Íslendinga til þess að ferðast um landið vítt og breitt.

Ferðamálaráðherra telur það ekki athugavert, fjármálaráðherra segir að það væri vandamál ef samskipti stjórnvalda við borgara færðust alfarið yfir á samfélagsmiðla og forsætisráðherra segir umræðunnar vert að mótuð sé stefna í þessum málaflokki.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir að í tilfelli Ferðamálastofu sé reynt að ná til sem flestra. „Það er einfaldlega þannig að samfélagsmiðlar eru öflugt tæki til þess. Ég geri enga athugasemd við að Ferðamálastofa nýti þessar leiðir eins og aðrar,“ segir ráðherrann og bendir á að einnig verði auglýst í innlendum miðlum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra gerir ekki athugasemd við að …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra gerir ekki athugasemd við að auglýsingar séu keyptar hjá erlendum samfélagsmiðlum í átaki Ferðamálastofu ætluðu Íslendingum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skila engu til íslensks samfélags 

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri sagði í samtali við mbl.is í gær að nauðsynlegt væri að nota erlenda samfélagsmiðla í þessum tilgangi, þó að það kynni hugsanlega að skjóta skökku við að kaupa erlenda þjónustu frá fyrirtækjum sem skili engu til íslensks samfélags, þegar markmiðið er sérstaklega að hvetja landsmenn til að kaupa innlenda vöru og þjónustu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir við mbl.is að samfélagsmiðlar hafi reynst ódýr kostur til að koma skilaboðum til margra, en hann megi þó ekki taka yfir. „Það væri vandamál ef við færum alfarið úr íslenskum fjölmiðlaheimi yfir á samfélagsmiðla með öll samskipti við borgara vegna þess að það myndi grafa undan tilveru fjölmiðla, sem væri skrítið að við gerðum á sama tíma og við erum að styðja þessa sömu miðla. En einhvers konar blanda við nýtingu ólíkra boðleiða til fólks gæti komið til greina,“ segir hann.

Engin stefna fyrir hendi

Blanda gæti komið til greina segir Bjarni en bendir um leið á hitt, sem rétt er, að engin miðlæg ákvörðun hefur verið tekin um tilhögun þessara mála. Það þýðir að stofnanir geta hver fyrir sig ákveðið hvernig þær hátta auglýsingamálum og við þær ákvarðanir geta þá gilt hagkvæmnissjónarmið ein um útbreiðslu auglýsingarinnar, í stað þess að leitast sé við að beina þeim frekar til íslenskra fjölmiðla.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir við mbl.is að engin samræmd ákvörðun hafi verið tekin um það í ríkisstjórn hvernig auglýsingum hins opinbera skuli háttað. „Það er engin skýr samræmd stefna sem hefur verið mótuð en mér fyndist það allrar umræðu vert, að taka þetta fyrir á vettvangi ríkisstjórnar,“ segir Katrín.

Katrín Jakobsdóttir segir tilefni til að ræða það að móta …
Katrín Jakobsdóttir segir tilefni til að ræða það að móta stefnu um auglýsingabirtingar ríkisstofnana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Styrkja fjölmiðla beint á sama tíma og skipt er við erlenda risa 

Eins og Bjarni bendir á stendur til að styðja fjölmiðla með beinum hætti með endurgreiðslu úr ríkissjóði á rekstrarkostnaði miðlanna, á sama tíma og opinberar stofnanir skipta í auknum mæli við erlend stórfyrirtæki í auglýsingakaupum, sem greiða lítil ef nokkur opinber gjöld á Íslandi.

Tvísýnt hefur verið um fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráherra, sem átti að veita fjölmiðlum stuðning af ofangreindum toga á ársgrundvelli. Tilkynnt var um eingreiðslu úr ríkissjóði upp á 350 milljónir til fjölmiðla vegna veirunnar og virðist fjármagnið fyrir hana hafa verið sótt í fjármagn sem var ætlað upprunalega frumvarpinu.

Katrín forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að sú staðreynd að fjármagnið fyrir eingreiðslu til fjölmiðla hafi verið sótt í þá fjárheimild sem var ætluð fjölmiðlaframvarpinu í stað þess að eingreiðslan yrði tilefni til nýrrar afmarkaðrar heimildar í fjáraukalögum, sé ekki ástæða til að ætla að ekki verði af fjölmiðlafrumvarpinu, enda hafi upprunalega fjármagnið hvort eð er til dæmis verið ætlað til lengri tíma en eins árs. Enn standi til að taka frumvarpið til meðferðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert