Nauðsynlegt útspil fyrir mánaðamót

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins. mbl.is/Ófeigur

„Við fögnum aðgerðapakkanum, enda með vilyrði fyrir samráð um útfærslu á honum, en það var nauðsynlegt að fá þetta fram fyrir mánaðamót,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um framhald hlutabótaleiðarinnar og stuðning stjórnvalda við launagreiðslur fyrirtækja.

Aðgerðirnar voru kynntar í Safnahúsinu í hádeginu en um er að ræða þriðja aðgerðapakkann vegna kórónuveirufaraldursins. 

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra greindi frá því að hluta­bóta­leiðin svo­kallaða verður fram­lengd með óbreytt­um hætti út júní. Jafn­framt kom fram að fyr­ir­tæki sem orðið hafa fyr­ir að lág­marki 75% tekju­falli og sjá fram á áfram­hald­andi tekju­fall geti sótt um stuðning úr rík­is­sjóði vegna greiðslu launa á upp­sagn­ar­fresti. Þá verða sett­ar ein­fald­ari regl­ur um fjár­hags­lega end­ur­skipu­lagn­ingu fyr­ir­tækja sem auðveld­ar þeim að kom­ast í greiðslu­skjól.

Drífa bendir á að það eigi eftir að útfæra skilyrði og frumvörpin sjálf en ASÍ mun meðal annarra vinna með stjórnvöldum að útfærsluatriðum tengdum aðgerðunum.

„Ljóst var að það þyrfti að framlengja hlutabótaleiðina og það er gott að hún sé tröppuð niður, enda er um að ræða tímabundin úrræði og vonandi tímabundna erfiðleika,“ segir Drífa.

Drífa segir ljóst að frekari uppsagnir séu væntanlegar og því mikilvægt, eins og kom fram í máli forsætisráðherra, að tryggja réttindi launafólks. Fólk verði að hafa möguleika á því að komast í önnur og ný störf en ASÍ lagði áherslu á að fólk væri ekki í vistabandi við fyrirtæki sem myndi hugsanlega ekki endurráða það að erfiðleikum loknum.

„Þetta er eitt þeirra skrefa sem þarf að taka,“ segir Drífa um tíðindi dagsins. Hún ítrekar að það skipti miklu máli hvenrig aðgerðirnar verða útfærðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert