„Þetta er ekki samtal fyrirspyrjanda og ráðherrans“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/​Hari

„Ég er með orðið háttvirtur þingmaður. Þú kemst í andsvar þegar ég er búin að tala,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, þegar Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata greip fram í fyrir henni úr þingsal í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Þegar Þórdís hafði rétt sleppt orðinu glumdi í bjöllu Alþingis sem forseti þingsins, Steingrímur J. Sigfússon, hafði slegið í. „Forseti biður háttvirtan fyrirspyrjanda að leyfa ráðherra að svara. Þetta er ekki samtal fyrirspyrjanda og ráðherrans heldur er háttvirtur ráðherra að svara og hann svarar öllum þingheimi og þjóðinni,“ sagði Steingrímur. 

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 

Jón Þór gagnrýndi frumvarp nýsköpunar- og ferðamálaráðherra um ferðaskrifstofur. Í frumvarpinu er kveðið á um heimild til að gefa út inneignarnótur fyrir þær pakkaferðir sem er aflýst vegna farsóttarinnar í stað þess að endurgreiða þær að fullu eins og núverandi lög kveða á um. Jón Þór fullyrti að með frumvarpinu væri ráðherra að brjóta eignarrétti einstaklings með því að heimila ferðaskrifstofum að halda eftir fé viðskiptavina. 

„Ætlar ráðherra að halda til streitu þeirri lausn sinni sem brýtur stjórnarskrá á eignarrétti eða er hún að fara að sjá ljósið,“ sagði Jón Þór. Hann spurði einnig hvort ráðherra hafi haft samráð við fulltrúa neytenda þegar frumvarpið var sett saman. Hann tók fram að hægt hefði verið að þetta án þess að brjóta á neytendum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún sagði að „stór orð hefðu verið látin falla“ og að hún gæti ekki tekið undir að meðvitað væri verið að brjóta á rétti fólks. Hún sagði að ráðuneytið hefði legið yfir þessu máli síðustu vikur en tók fram að hún ætlaði ekki að halda því fram að frumvarpið væri fullkomið og jákvætt að bent væri á galla þess.   

Frumvarpið er núna í þinglegri meðferð og að þeim upplýsingum verði skilað inn sem óskað væri eftir innan tímafrests. Hún benti ennfremur á að ekki væri þarft að „hækka róminn verulega“ eða að „halda að það verði ekki gert.“

Þórdís spurði ennfremur Jón Þór hvernig frumvarpið verði afgreitt úr nefndinni þar sem frumvarpið er til meðferðar og hann á sæti í. 

mbl.is