150 sagt upp hjá Kynnisferðum

150 af um 350 starfsmönnum Kynnisferða hefur verið sagt upp.
150 af um 350 starfsmönnum Kynnisferða hefur verið sagt upp. mbl.is/Ómar Óskarsson

150 starfsmönnum hjá Kynnisferðum hefur verið sagt upp eða um 40% starfsmanna fyrirtækisins. Starfsmönnum var tilkynnt um uppsagnirnar í gær og klukkan 10 hófst starfsmannafundur þar sem farið er yfir uppsagnirnar og næstu skref. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir í samtali við mbl.is að dagurinn í dag sé afar erfiður. 

Uppsagnirnar ná til ferðaskrifstofu Kynnisferða og öllum starfsmönnum á söluskrifstofu, þjónustuveri, í afgreiðslu og skrifstofuveri hefur verið sagt upp. Öllum starfsmönnum hjá bílaleigu Kynnisferða hefur sömuleiðis verið sagt upp. Þá hefur 50 starfsmönnum hjá almenningsvögnum Kynnisferða verið sagt upp og 20 manns sem starfa hjá hópbifreiðum fyrirtækisins. 

Aðeins nokkrir hópferðabílstjórar sem starfa innan ferðaþjónustuhluta Kynnisferða halda starfinu en verða færðir yfir í akstur almenningsvagna. 

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er alveg ömurlegt“

„Þetta er alveg ömurlegt,“ segir Björn, sem er samt sem áður ánægður með þær aðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru í gær sem fela meðal annars í sér að fyr­ir­tæki sem orðið hafa fyr­ir að lág­marki 75% tekju­falli og sjá fram á áfram­hald­andi tekju­fall að minnsta kosti út þetta ár geta sótt um stuðning úr rík­is­sjóði vegna greiðslu hluta launa­kostnaðar á upp­sagn­ar­fresti.

„Fólk, sem er sagt upp núna, á forgang í vinnu hjá fyrirtækjunum og það er akkúrat þannig sem við hugsum málið. Við viljum leita til þessa fólks, ef það er ekki komið annað, að koma aftur til starf hjá félaginu þegar það rofar til. En óvissan er svo mikil og því getum við ekki annað en sagt upp fólki,“ segir Björn. 

Frekari uppsagnir eru mögulegar um næstu mánaðamót að sögn Björns. „Við munum nota maímánuð til að ræða við hópferðabílstjórana og athuga hvort þeir eru tilbúnir í að koma yfir í strætóakstur og ef það eru einhverjir sem treysta sér ekki í það þá verður það bara að vera þannig.“mbl.is