Þjóðarpúls sýnir þjóð slaka á

Færri tileinka sér nú breyttar venjur en þegar faraldurinn stóð …
Færri tileinka sér nú breyttar venjur en þegar faraldurinn stóð sem hæst hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhyggjur þjóðarinnar minnkuðu og færri tileinkuðu sér breyttar venjur vegna kórónuveirufaraldursins í liðinni viku, ef marka má Þjóðarpúls Gallup.

Viðhorf almennings hafa verið könnuð vikulega síðan fyrsta samkomubannið tók gildi, og líkt og þríeyki almannavarna sagði viðbúið fóru landsmenn að slaka á um leið og tilslakanir aðgerða 4. maí voru kynntar í síðustu viku.

Þannig sögðust aðeins 30% hafa breytt venjum sínum mjög mikið til að forðast COVID-19 smit í könnun sem gerð var 21. - 28. apríl, samanborið við 35,9% vikuna á undan og 40% vikurnar tvær þar áður.

Þá óttuðust aðeins 19,9% frekar mikið að smitast af COVID-19 í liðinni viku, en óttinn náði hámarki vikuna 27. mars til 2. apríl þegar 32,4% óttuðust mjög eða frekar mikið að smitast.

Enn telur stærstur hluti þjóðarinnar, eða 90,6%, almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld vera að gera hæfilega mikið til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum. Þeim fjölgar hins vegar sem telja ríkisstjórnina vera að gera allt of lítið (8,9%) eða aðeins of lítið (26,2%) til að bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum af völdum faraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert