Skilafrestur framlengdur til 14. maí

mbl.is/Styrmir Kári

Skiladagur allra bókasafnsgagna hefur verið framlengdur til 14. maí og eru engar dagsektir reiknaðar fram að þeim degi hjá Borgarbókasafninu en bókasöfn verða opnuð að nýju á mánudag. Gildistími allra bókasafnsskírteina hefur verið framlengdur um 6 vikur.

„Nú styttist í 4. maí og við erum full eftirvæntingar að opna bókasöfnin á ný. Við höfum sorterað, hagrætt og umbreytt og erum spennt að sýna ykkur afraksturinn. Við förum þó varlega af stað, pössum upp á tvo metrana, þrífum yfirborð og snertifleti reglulega, sem og yfirborð allra safngagna sem skilað er. Fjöldi í hverju rými verður takmarkaður við 50 manns,“ segir í tilkynningu.

Borgarbókasafnið Sólheimum verður áfram lokað vegna framkvæmda en opnar aftur innan skamms. Bókabíllinn Höfðingi verður ekki ræstur alveg strax en á vef safnsins verður hægt að fylgjast með hvenær hann fer af stað að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert