„Við þurfum að fara hægt í sakirnar“

„Píningsveturinn er að baki,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, en á morgun verða stigin fyrstu skrefin í að aflétta samkomubanni sem hvílt hafi þungt á landsmönnum undanfarnar vikur. Hún tekur þó fram að björninn sé ekki unninn, þótt við virðumst vera komin með yfirhöndina í baráttunni gegn kórónuveirunni. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún sagði að í fornum annálum hefði …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún sagði að í fornum annálum hefði verið til siðs þegar vetur voru harðir að gefa þeim nöfn á borð við Píningsvetur eða Lurkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þurfum að fara hægt í sakirnar því að ekki má glutra niður þeim árangri sem náðst hefur. Áfram þurfum við að halda ró okkar og stillingu og feta okkur hægum skrefum eftir því einstígi sem er framundan. Ef við förum of geyst, þá eru líkur á því að bakslag verði og við þurfum að byrja baráttuna upp á nýtt. Slíkt hefði skelfilegar afleiðingar fyrir efnahaglíf okkar og þjóðlífið allt og það er undir okkur sjálfum komið að gæta þess að slíkt gerist ekki,“ sagði Katrín í sjónvarpsávarpi í kvöld. Það má horfa á hér fyrir ofan. 

Efnahagsleg áhrif djúp og ófyrirséð

Hún segir að efnahagsleg áhrif veirunnar séu djúp og ófyrirséð hve langvarandi þau verði. „Leiðarljós okkar allra verður að halda uppi atvinnustigi og tryggja afkomu og réttindi launafólks. Leiðarljós okkar verður að skapa ný störf og auka verðmætasköpun til að bæta upp fyrir það sem tapast hefur,“ sagði Katrín m.a. 

Í ávarpinu fór hún yfir þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til frá því fyrsta tilfellið af veirunni greindist hér á landi 28. febrúar sl. 

„Sem betur fer vorum við ekki óundirbúin og síðan þá hafa stjórnvöld framfylgt markvissum sóttvarnaráðstöfunum til að ná tökum á veirunni, verja mannslíf og tryggja að heilbrigðiskerfið okkar réði við álagið,“ sagði Katrín. 

Hún segir m.a. að það sé ástæða til að gleðjast yfir því að heilbrigðiskerfið hafi staðist þetta mikla álagspróf og heilbrigðisstarfsfólk hafi sýnt gríðarlegan styrk, fagmennsku og sveigjanleika í að takast á við ótrúlega krefjandi aðstæður.

„Við höfum verið áþreifanlega minnt á gildi vísinda og þekkingar …
„Við höfum verið áþreifanlega minnt á gildi vísinda og þekkingar og á gildi faglegra og fumlausra vinnubragða. Hér heima hafa stjórnvöld, vísindamenn og viðbragðsaðilar unnið sem einn maður og af því er ég stolt,“ sagði Katrín. Á myndinni má sjá þau Ölmu Möller landlækni og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni. mbl.is/Árni Sæberg

Tíminn reynst mörgum erfiður

Hún tekur fram að þessi tími hafi reynst mörgum erfiður þó að reynt hafi verið að raska samfélaginu eins lítið og hægt hafi verið. Tíminn hafi þó verið erfiðastur þeim sem veiktust, sumir mjög illa. Alls hafi tíu látist af völdum veirunnar. 

„Ég votta fjölskyldum þeirra og vinum samúð mína og stjórnvalda. Hugur okkar allra er hjá þeim,“ sagði ráðherra. 

Varðandi efnahagsleg áhrif veirunnar, segir Katrín að landamæri Íslands séu lokuð til 15. maí og fyrir þann tíma muni liggja fyrir áætlun um næstu skref stjórnvalda í þeim málum.

„Þar er þó enn töluverð óvissa vegna þess að faraldurinn hefur þróast með ólíkum hætti milli ólíkra landa. En góðum árangri okkar í sóttvarnamálum verður ekki stefnt í hættu,“ sagði Katrín. 

„Efnahagsleg áhrif veirunnar eru djúp og ófyrirséð hve langvarandi þau …
„Efnahagsleg áhrif veirunnar eru djúp og ófyrirséð hve langvarandi þau verða. Hér heima er höggið þyngst hjá ferðaþjónustunni sem skilaði hátt í 40 prósentum allra útflutningstekna í fyrra. Nú liggja flugsamgöngur niðri, landamæri eru víða lokuð og ferðavilji fólks er lítill,“ sagði ráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erum stödd í þoku

„Við erum stödd í þoku og hún er myrk en við vitum samt að þoku léttir að lokum. Ekki er ósennilegt að ferðaþjónustan muni taka breytingum en hitt mun ekki breytast að hingað vill fólk koma til að upplifa okkar stórbrotnu náttúru. Við teljum að jákvæð umfjöllun um Ísland á heimsvísu hafi sín áhrif. Við vitum að í íslenskri ferðaþjónustu hefur orðið til mikil þekking seinustu árin og hún mun áfram nýtast.

En faraldurinn mun líka hafa áhrif á aðrar útflutningsgreinar. Atvinnuleysi hefur ekki verið meira á lýðveldistímanum. Í liðinni viku urðu þúsundir landsmanna fyrir því gríðarlega áfalli að missa vinnuna og áður höfðu margir orðið fyrir atvinnumissi. Það veit sá einn sem reynt hefur að vera atvinnulaus hvað það er erfitt og lamandi. Það er ekki eingöngu efnahagslegt áfall, heldur getur það verið sálrænt og líkamlegt. Ábyrgð okkar stjórnvalda er að styðja enn betur við fólk í erfiðum aðstæðum. Og það munum við gera. Því nú er tíminn hugsa vel hvert um annað,“ sagði Katrín jafnframt. 

„Ef okkur tekst vel upp eru allar forsendur til þess …
„Ef okkur tekst vel upp eru allar forsendur til þess að batinn verði hraður. Ísland verður áfram land tækifæranna, land með öflugar grunnstoðir, stórbrotna náttúru og einstaka menningu en fyrst og fremst kærleiksríkt fólk sem getur allt sem það vill,“ sagði Katrín. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún tók fram, að landsmenn megi þó ekki fagna of snemma þó fyrstu skrefin í átt að bjartari dögum verði stigin á morgun.

„Við fórum saman í þessar aðgerðir og við ætlum að koma út úr þeim saman.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina