5G þjónusta Nova komin í loftið

Margrét forstjóri Nova tók formlega við 5G tíðnunum í dag …
Margrét forstjóri Nova tók formlega við 5G tíðnunum í dag og hleypti kerfinu af stokkunum F.v. Þorleifur Jónasson frá Póst- og fjarskiptastofnun, Benedikt Ragnarsson fjarskiptasviði Nova, Margrét Tryggvadóttir forstjóri Nova og Guðmann Bragi Birgisson frá Póst- og fjarskiptastofnun. Ljósmynd/Aðsend

Póst- og fjarskiptastofnun hefur úthlutað farsímafyrirtækinu Nova 5G fjarskiptatíðnum og er fyrirtækið það fyrsta til að taka kerfið í notkun hérlendis, að því er  segir í tilkynningu. 5G þjónusta Nova fór í loftið í dag en prófanir höfðu staðið yfir hjá fyrirtækinu í rúmt ár.

Hraði og flutningsgeta gagna með 5G er um tífalt meiri en á 4G kerfinu, sem hefur rutt sér hratt til rúms á stærstu þéttbýlissvæðum heims undanfarin ár. 5G sendum Nova mun fjölga jafnt og þétt á næstunni en þegar eru komin á markaðinn ýmis tæki sem styðja 5G og fljótlega munu flest ný tæki og farsímar geta nýtt sér 5G.

Milljarða uppbygging í samstarfi við Huawei

Samkvæmt Margréti Tryggvadóttur, forstjóra Nova, segir mjög mikilvægt fyrir fólk og fyrirtæki á Íslandi að tæknilegir innviðir séu á pari við það sem best gerist í heiminum og að heildarkostnaðurinn við uppbyggingu á 5G fjarskiptakerfi Nova, sem unnin hefur verið í samstarfi við Huawei Tecnnologies, hlaupi á milljörðum króna.

Farsímaframleiðendurnir Samsung og OnePlus eru þegar með síma á markaði sem styðja 5G og þegar opnað hefur verið fyrir tíðnirnar á Íslandi er þess að vænta að þeir opni fyrir 5G notkun á Íslandi, en fyrr er ekki hægt að nota þau á 5G. Einn vinsælasti farsími á Íslandi, iPhone, styður hins vegar ekki 5G, en gert er ráð fyrir því að Apple kynni iPhone með 5G í haust.

Allt að 10 þéttbýliskjarnar með 5G fyrir árslok 2021

Nova stefnir á hraða uppbyggingu 5G kerfisins, en Póst- og fjarskiptastofnun reiknar með því að fyrir árslok 2021 geti allt að níu þéttbýliskjarnar á landsbyggðinni, auk höfuðborgarsvæðisins, haft aðgang að 5G þjónustu og gildir úthlutun stofnunarinnar á 5G tíðnum aðeins til loka 2021 og mun endurnýjun ráðast af því hvort viðmið stofnunarinnar hafi verið uppfyllt.

mbl.is

Bloggað um fréttina