Höggið mikið en treysta á Íslendinga

Ferðamenn við Gullfoss síðasta vor. Straumur erlendra ferðamanna hingað til …
Ferðamenn við Gullfoss síðasta vor. Straumur erlendra ferðamanna hingað til lands snarhætti þegar kórónuveirufaraldurinn fór af stað. mbl.is/Árni Sæberg

Ástand mála hjá þremur hótelum á landsbyggðinni er dökkt vegna kórónuveirunnar en öll ætla þau að bjóða upp á tilboð í sumar í von um að laða að innlenda ferðamenn.

„Það hefur orðið rosaleg fækkun í bókunum eins og gefur að skilja,“ segir Eyrún Aníta Gylfadóttir, markaðsfulltrúi Hótels Rangár, spurð út í stöðu mála. Ekki hefur þó þurft að segja upp starfsfólki.

Hún segir að bókanir Íslendinga fyrir sumarið hafi aðeins aukist en þær séu langt frá því að koma í staðinn fyrir hefðbundnar bókanir. Í fyrra komu 25 þúsund gestir á hótelið og af þeim voru Íslendingar aðeins 2.500 talsins. 52 herbergi eru á hótelinu og nam nýting þeirra 73% að meðaltali á síðasta ári.

Hótel Ranga hefur verið vinsælt á meðal ferðamanna.
Hótel Ranga hefur verið vinsælt á meðal ferðamanna. Ljósmynd/Hótel Rangá

Íslendingar í hópferðir

Núna er hótelið að bjóða upp á tilboð sem gildir í maí í samstarfi við afþreyingafyrirtæki á svæðinu. Enn „hanga inni“ bókanir erlendra ferðamanna fyrir júlí og ágúst en mikið hefur verið afbókað mánuðina á undan. „Maður vonar það besta en vill samt ekki fara of hratt í sakirnar,“ segir Eyrún. „Við hlýðum Víði.“

Hún nefnir að fyrirspurnir hafi komið frá Íslendingum sem ætla að ferðast innanlands í sumar í litlum hópum, meðal annars golf-, hjólreiða- og hestamannahópum.

Ferðamenn taka sjálfur við Goðafoss.
Ferðamenn taka sjálfur við Goðafoss. mbl.is/​Hari

Opna aftur eftir tveggja mánaða hlé

Hótel Húsafell hefur verið lokað síðan um miðjan mars vegna veirunnar. Að sögn Kristjáns Guðmundssonar, sölu- og markaðsstjóra hótelsins, hefur mikið verið um afbókanir. Einnig hafa margir fært ferðir yfir á næsta ár. 48 herbergi eru á hótelinu, sem verður opnað á nýjan leik 20. maí.

Útlendingar eru stærsti hluti viðskiptavina hótelsins en „lúmskt mikill“ kjarni af Íslendingum hefur einnig sótt hótelið heim. „Þetta er svæði sem Íslendingum þykir vænt um og það er mikið af afþreyingu hérna sem Íslendingum finnst spennandi, til dæmis mikið af skemmtilegum gönguleiðum,“ greinir Kristján frá.

Ekki hefur þurft að segja neinu starfsfólki upp. „Við stefnum á að reyna að halda okkar starfsfólki í vinnu en maður veit ekki hvað gerist. Maður tekur eina viku fyrir í einu.“

Hótel Húsafell.
Hótel Húsafell. Ljósmynd/Þórður Kristleifsson

Tilboð stíluð á Íslendinga

Hótelið verður með tilboð í sumar stíluð á Íslendinga og er kynning á þeim að hefjast. Spurður út í herbergjanýtingu frá því hótelið var opnað árið 2015 segir hann að hún hafi verið góð. Nýtingin sé á uppleið og hótelið að ná sífellt stærri hlutdeild á markaðnum. Sumrin hafa hingað til verið góð og því segir hann höggið mikið að missa út þetta sumar varðandi komu erlendra ferðamanna. „Staðan er dökk en við vonum að Íslendingar hjálpi okkur í sumar.“

Ferðamenn á gangi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Ferðamenn á gangi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert

Afbókanir lengjast inn í sumarið 

„Þetta er bara núll,“ segir Þórir Stefánsson, eigandi Hótels Framtíðar á Djúpavogi, um stöðu mála. Afbókanir hófust 15. mars og eru þær sífellt að lengjast inn í sumarmánuðina.

„Við vitum ekkert eftir 15. júní. Eins og staðan er núna er fullt af bókunum í kerfinu en það er spurning hvað af þessu fólki á eftir að koma,“ segir hann og nefnir hópa frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi og Belgíu en um 80% gesta hótelsins eru útlendingar.

Skilmálar vegna afbókana hafa verið rýmkaðir og núna er hægt að hætta við með þriggja vikna fyrirvara. „Það lifa allir í voninni um að það verði hægt að lifa eðlilegu lífi eftir einhvern ákveðinn tíma.“

Hótel Framtíð á Djúpavogi.
Hótel Framtíð á Djúpavogi. Ljósmynd/Andrés Skúlason

Teljandi á fingrum annarrar handar

Þórir segir að öll gisting á hótelinu hafi verið opin á þessu ári en 15. mars var ákveðið að loka fyrir alla veitingasölu enda ljóst að ekki var hægt að halda úti matseðli eða morgunverðarhlaðborði vegna veirunnar. „Það eru svo fáir gestir sem hafa komið að við teljum þetta á fingrum annarrar handar síðan 15. mars. Þetta hefur ekki verið vandamál hjá þessum fáu sem hafa komið. Fólk er mjög skilningsríkt.“

Ekki hefur verið þörf á því að segja upp starfsfólki, að sögn Þóris. Um 25 manns starfa á hótelinu á sumrin en yfir vetrartímann fækkar þeim í átta til tíu. Ákveðið var að nýta 25% hlutabótaleiðina sem stjórnvöld buðu upp á í tengslum við veiruna. Hann segir innkomuna á hótelinu þó ekki duga til að borga laun fyrir 25% hlutfall en að þau ætli að reyna að þrauka og vona það besta.

Í þessari viku verður boðið upp á sumartilboð fyrir Íslendinga. „Við lifum í voninni um að fólk vilji jafnvel koma í fleiri en eina nótt. Djúpivogur er algjör fugla- og náttúruparadís og einn fallegasti staður á Íslandi,“ segir Þórir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert