Þjóðaröryggisráð og Vísindavefur í samstarf

Vísindavefur Háskóla Íslands hefur lagt sitt af mörkunum til upplýstrar …
Vísindavefur Háskóla Íslands hefur lagt sitt af mörkunum til upplýstrar umræðu um það sem tengist veirum og COVID-19 og sett á laggirnar sérstaka ritnefnd fræðimanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vinnuhópur þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19 hefur hafið samstarf við Vísindavef Háskóla Íslands, en í tilkynningu segir að því sé ætlað að greiða fyrir því að fjölmiðlar og almenningur geti leitað staðfestingar á upplýsingum sem til þeirra berast með sambærilegum hætti og gert er í mörgum öðrum ríkjum sem Ísland er í samstarfi við á ýmsum sviðum.

Í tilkynningunni segir að mikilvægi vísinda, sérfræðiþekkingar og samvinnu á sem flestum sviðum sé öllum ljóst um þessar mundir. Vísindavefurinn hefur lagt sitt af mörkunum til upplýstrar umræðu um það sem tengist veirum og COVID-19 og sett á laggirnar sérstaka ritnefnd fræðimanna, sem hefur, ásamt öðrum sérfræðingum, svarað ýmsum spurningum sem aðgengilegar eru á Vísindavefnum undir yfirskriftinni COVID-19 — upplýst umræða.

Meðal hugmynda um það sem samstarf þetta getur falið í sér er að fjölmiðlar geti leitað til vísindamanna með milligöngu ritstjórnar Vísindavefsins um að staðreyna upplýsingar er varða heimsfaraldurinn, að fjölmiðlar og blaðamenn geti leitað til ritnefndar Vísindavefsins til þess að fá staðreyndavöktun á fréttum tengdum COVID-19, að svör í sérstökum flokki Vísindavefsins um COVD-19 verðu birt á covid.is og eins á samfélagsmiðlum undir merkjum Vísindavefsins, embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og að embætti landlæknis og Vísindavefurinn vinni saman að svara og halda utan um fyrirspurnir, bæði sem koma í gegnum vefinn covid.is og er beint til Vísindavefsins.

mbl.is