Þrýstir á stjórnvöld að opna líkamsræktarstöðvar

Viktor Berg Margrétarson er orðinn þreyttur á biðinni eftir því …
Viktor Berg Margrétarson er orðinn þreyttur á biðinni eftir því að komast aftur í ræktina eins og svo margir aðrir. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er ekki grín en ég er ekki að krefjast neins. Þetta er bara til að sýna það að það er fullt af einstaklingum sem vilja að líkamsræktarstöðvar verði opnaðar,“ segir Viktor Berg Margrétarson í samtali við mbl.is. Hann hefur hafið undirskriftasöfnun til þess að þrýsta á stjórnvöld að opna líkamsræktarstöðvar um leið og sundlaugar verða opnaðar.

„Tilgangur þessa undirskriftalista er að pressa á stjórnvöld að opna líkamsræktarstöðvar þar sem það mun opna í sundlaugar þann 18. maí 2020, en ekki líkamsræktarstöðvar,“ segir á vef Þjóðskrár Íslands þar sem undirskriftum er safnað. Tæplega 800 manns höfðu skrifað nafn sitt á listann þegar mbl.is náði tali af Viktori um þrjúleytið.

Viktor tekur fram að honum finnist frábært að verið sé að aflétta takmörkunum í þjóðfélaginu og að eðlileg starfsemi sé hafin að nýju víða en hann telur að sundlaugar og líkamsræktarstöðvar eigi að hanga saman í þessu tilliti. „Að það sé verið að opna sundlaugar en ekki líkamsræktarstöðvar er náttúrlega bara svolítið skrýtið,“ segir hann.

Er ekki sérfræðingur og treystir Þórólfi

Hann minnist þess að áður en líkamsræktarstöðvum var gert að loka hafi starfsemin farið vel fram og ýtrustu varúðar verið gætt. „Það voru allir rosalega duglegir að sótthreinsa, að passa tveggja metra regluna og annað hvert tæki var tekið úr umferð.“

Hann viðurkennir þó fúslega að hann sé enginn sérfræðingur í smitvörnum og tekur fram að hann treysti Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni hundrað prósent til að sinna því starfi.

Viktor bendir þó á að í sundlaugum séu allir skikkaðir í klefann og sturtu áður en farið er ofan í laugina, eðlilega. En í líkamsræktarstöðvum væri hægt að hafa klefa lokaða til að fækka snertiflötum og passa að tveggja metra reglan væri virt.

Spyr um muninn á líkamsrækt og annarri starfsemi

„Það eru líka rosalega fáir smitaðir í dag þannig að af hverju ætti ekki að opna? Það er verið að hleypa fólki í klippingar, húðflúr, snyrtimeðferðir og annað þar sem það er ekki fræðilegur möguleiki að virða tveggja metra regluna. Það er verið að hleypa börnum í leikskóla og skóla og þá er íþróttastarf að hefjast. Þannig að af hverju ætti ekki að opna líkamsræktarstöðvar líka?“ spyr hann en fær engin svör frá blaðamanni.

Spurður hvort hann ætli að reyna að fá svör við spurningum sínum frá heilbrigðisyfirvöldum segist hann ætla að láta undirskriftalistann duga, í bili að minnsta kosti, því undirtektirnar hafi verið góðar hingað til.

En hvernig hefur hann verið að rækta líkamann síðan stöðvunum var gert að loka?

„Ég hef verið að beita öllum brögðum og hef til dæmis farið út að æfa með teygjur og dót. Svo byrjaði ég í bílakjallaranum hjá tengdaforeldrum mínum þangað til það var bannað. Ég hef verið að stelast í bílskúrinn hjá félaga mínum en núna er ég að æfa á lagernum í vinnunni hjá mér,“ segir Viktor að lokum.

mbl.is