HR og borgin semja um Borgarlínu

Ari og Dagur eftir undirritun samningsins.
Ari og Dagur eftir undirritun samningsins. Ljósmynd/Aðsend

Starfsfólk og nemendur Háskólans í Reykjavík munu geta farið í og úr Borgarlínu í yfirbyggðri stoppistöð í HR þegar fyrsti áfangi hennar verður að veruleika árið 2023.

Borgarlínan mun tengja HR við áætlaða samgöngumiðstöð á BSÍ-reitnum og veita nemendum og starfsfólki nýjan og umhverfisvænan valkost í samgöngum til og frá háskólanum, að því er kemur fram í tilkynningu.

Frá HR mun Borgarlínan liggja yfir Fossvoginn á nýrri brú og í Hamraborg í Kópavogi. Stoppistöðin mun einnig nýtast öllum sem nota nærliggjandi útivistarsvæði í Öskjuhlíð og Nauthólsvík.

Ljósmynd/Aðsend

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Ari K. Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík skrifuðu í dag undir samkomulag um stoppistöð vegna Borgarlínu við HR og aukið byggingamagn á lóð háskólans. Háskólinn í Reykjavík mun samkvæmt samkomulaginu fá aukið svigrúm til starfsemi á sviði þekkingar, rannsókna, hátækni og nýsköpunar á svæðinu. Útfærsla á byggingum á lóðinni mun fara fram samhliða breytingum á deiliskipulagi.

„Háskólanemar geta þá nýtt sér hágæðaalmenningssamgöngur með fyrstu stoppistöðinni á landinu sem verður innanhúss en HR er ein af 26 stöðvum sem eru hluti af fyrsta áfanga Borgarlínu. Meðfram Borgarlínustöðvunum verður svo þétt og áhugaverð byggð. Eftir því sem fleiri búa nálægt háskólunum því færri hafa um langan veg að fara og þá minnkar umferðin,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í tilkynningunni.

Ari K. Jónsson, rektor HR, bætir við: „Með Borgarlínu, Háskólagörðum HR sem við erum að opna í haust, og húsnæði til að stunda fjölbreytta nýsköpun styrkjum við til muna öflug háskólasvæði við rætur Öskjuhlíðar. Við erum þess vegna virkilega spennt fyrir því að þetta samkomulag sé í höfn og hlökkum til að halda áfram vinnu við þetta verkefni með borginni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert