Kafað eftir rusli í óvissunni

Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru mörg í óvenjulegum verkefnum þessa dagana. Starfsmenn Dive.is hafa til að mynda kafað eftir rusli við strendur landsins í samstarfi við Bláa herinn og í vikunni var farið með fyrstu Íslendingana í yfirborðsköfun í Silfru.

Þegar mest lét voru um 55 starfsmenn í vinnu hjá Dive.is sem hefur sérhæft sig í köfunar- og yfirborðsköfunarferðum í Silfru á Þingvöllum. Þegar faraldur kórónuveirunnar skall á af fullum þunga voru um 20 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Síðan þá hefur verið lítið að gera. Síðasta skipulagða ferðin með erlenda ferðamenn var farin í Silfru um miðjan marsmánuð og flestir starfsmenn á uppsagnarfresti út ágúst.

Eftir að flæði ferðamanna stöðvaðist tóku við viðhaldsverkefni í fyrirtækinu en til að halda fólki uppteknu hefur nú verið brugðið á það ráð að kafa eftir rusli og var nýverið farið í fyrstu ferðina við Garð á Reykjanesskaga. Sem fyrr segir var verkefnið unnið með Bláa hernum og búið er að flokka og greina allt rusl sem var tínt af botni sjávar. „Við stefnum á að fara í margar svona hreinsanir í sumar með fólkinu okkar til að nýta þennan rólega tíma sem er framundan,“ segir Höskuldur Elefsen, framkvæmdastjóri fyrirtækisins þannig sé líka hægt að skila einhverju til samfélagsins.

Á mánudag var svo farið í fyrstu ferðina með íslenska viðskiptavini í Silfru en þeir hafa verið afar sjaldséðir til þessa í ferðum í þjóðgarðinum. Markmiðið er að laða sem flesta Íslendinga að í köfun eða yfirborðsköfun í sumar eða þar til að ferðamenn fara að streyma aftur til landsins. Í því skyni hafa verð verið lækkuð verulega en þau hafa í gegnum tíðina verið það sem heimafólk hefur helst sett fyrir sig, að sögn Höskuldar. Nú er til að mynda hægt að fara í yfirborðsköfun fyrir tíu þúsund krónur og ferðaávísanir stjórnvalda geta lækkað það verð um helming.

Í myndskeiðinu er rætt við Höskuld og Signýju Hermannsdóttir, sölu- og markaðsstjóra Dive.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert