Um 60% styðja ríkisstjórnina

Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og …
Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Ásmundur Einar Daðason á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku þar sem aðgerðir sökum kórónuveirunnar voru kynntar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tæplega 60% styðja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks samkvæmt nýrri skoðanakönnun Zenter rannsókna sem gerð var fyrir Fréttablaðið. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna mælist 43%. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að gott sé að finna þennan stuðning og að hann sé í takt við það sem hún hefur fundið úti í samfélaginu. Af þeim sem tóku afstöðu styðja fleiri konur ríkisstjórnina en karlar, eða 63% kvenna en 57% karla. 

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 22,4% fylgi. Samfylkingin kemur þar á eftir með 15% fylgi og tapar tveimur prósentustigum frá síðustu könnun Zenter. Píratar mælast þriðji stærsti flokkurinn með 11,8% fylgi, 0,1 prósentustigi meira en Vinstri græn sem eru með 11,7% fylgi. 

Þar á eftir koma Viðreisn með 9,8% fylgi, Miðflokkurinn með 8,6% fylgi og Framsóknarflokkurinn með 8,3%. 

Sósíalistaflokkurinn, sem stefnir á framboð í næstu kosningum, mælist með 4,5% fylgi, 0,1 prósentustigi meira en Flokkur fólksins, sem er með 4,4% fylgi. 3,3% svarenda sögðust ætla að kjósa annan flokk. 

Könnunin var framkvæmd 1. til 4. maí. 3.200 voru í úrtakinu, 18 ára og eldri, og var svarhlutfall 53%.

mbl.is