70 hefðu látist með „sænsku leiðinni“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það hefði verið erfitt að lifa með því ef íslenska heilbrigðiskerfið hefði verið keyrt gjörsamlega í kaf og fengið önnur mál upp líka sem tengjast öðrum sjúkdómum. Ef „sænska leiðin“ hefði verið farin hefðu andlátin hér á landi af völdum kórónuveirunnar orðið 70, ef miðað er við höfðatölu. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við sóttvarnalækni í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þórólfur segir fyrsta kaflanum í faraldrinum lokið en að nú taki við annar kafli sem felst í að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur. 

Þórólfur bendir á að dánartíðni af völdum COVID-19 er um sjö sinnum hætti í Svíþjóð miðað við höfðatölu en hér á landi. 

„Það hefði verið gríðarlegt högg fyrir heilbrigðiskerfið. Yfirfyllt gjörgæsludeildirnar og haft mikil áhrif á aðra sjúklingahópa,“ segir Þórólfur í samtali við Læknablaðið. Hann segir hugsanlegt að Svíar hafi ekki verið nægilega vel undirbúnir. „Ég tel að lykillinn að árangri sé þessi aggressífa nálgun að byrja að greina snemma, beita einangrun og smitrakningu og sóttkví.“

Hægt er að lesa og hlusta á viðtalið við sóttvarnalækni í Læknablaðinu hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert