Í 71 tilviki var barn í bráðri hættu

„Samfélagið lætur greinilega vita ef grunur vaknar um ofbeldi á …
„Samfélagið lætur greinilega vita ef grunur vaknar um ofbeldi á heimilum þar sem börn eru stödd.“ mbl.is/Ófeigur

Alls bárust 468 tilkynningar til Barnaverndar í apríl um 332 börn sem er næstmesti fjöldi tilkynninga á mánuði frá upphafi árs 2018. Alls voru 220 tilkynninganna vegna vanrækslu, 135 vegna áhættuhegðunar barna og 113 vegna ofbeldis. Í 71 tilviki var barn metið í bráðri hættu. Virk mál á borði barnaverndarstarfsmanna í Reykjavík eru 2.175 talsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Barnavernd Reykjavíkur. 

Þar segir að það veki athygli að tilkynningum um heimilisofbeldi, þar sem börn komu við sögu, fjölgaði hlutfallslega mjög mikið milli mánaða og hafi ekki verið fleiri í upphafi árs í rúman áratug.

Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir í tilkynningunni, að fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi þar sem börn séu á heimilinu sé mikið áhyggjuefni og það sé brugðist hratt við í slíkum málum.

Félagsráðgjafar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fari ætíð með lögreglu inn á öll heimili þar sem tilkynnt sé um ofbeldi og börn. Barnavernd bjóði börnum strax aðstoð í formi viðtala við sálfræðing barnaverndar og/eða einnig frekari vinnslu sinna mála hjá ráðgjafa. Samstarf lögreglu og barnaverndar sé hluti af verkefninu Saman gegn ofbeldi, sem hafi undanfarið minnt á aðstæður þolenda heimilisofbeldis í fjölmiðlum.

„Samfélagið lætur greinilega vita ef grunur vaknar um ofbeldi á heimilum þar sem börn eru stödd. Munum að það er ekki síður mikilvægt að halda áfram að ræða þessi mál opinskátt í kjölfar Covid-19,“ segir Hákon í tilkynningunni. 

Heildarfjöldi tilkynninga á mánuði 2018/2019 og 2020

Tilkynningar um heimilisofbeldi á mánuði frá 2018

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert