„Mér finnst það óviðunandi“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur það ekki hafa verið tilganginn með …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur það ekki hafa verið tilganginn með hlutabótaleið stjórnvalda að vel stæð fyrirtæki nýttu hana á sama tíma og þau greiddu sér út arð eða keyptu eigin bréf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er óviðunandi að stöndug fyrirtæki greiði sér út arð eða kaupi eigin bréf á sama tíma og þau nýta sér hlutabótaleið stjórnvalda til að greiða niður launakostnað starfsmanna sinna segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. Hlutabótaleiðin verður framlengd en skilyrði verða sett fyrir notkun hennar og þá verður viðurlagaákvæði sett inn í lögin.

Fyrirtækin Skelj­ung­ur, Hag­ar og Össur hafa öll nýtt sér hluta­bóta­leiðina eft­ir að hafa greitt hlut­höf­um sín­um arð eða keypt eig­in bréf. Slíkt er ekki bannað samkvæmt lögum en Katrín segir að vilji löggjafans hafi verið skýr þegar hlutabótaleiðin var sett á laggirnar og það verði að gera þá kröfu að fyrirtæki sýni ábyrgð.

Hlutabótaleiðin rennur úr gildi 31. maí en til stendur að framlengja hana og gera breytingar á henni, bæði hvað varðar fyrirkomulag en líka hvað varðar skilyrði. Frumvarpið er í smíðum hjá félagsmálaráðherra segir Katrín.

Viðurlagaákvæði sett inn í lögin 

„Þegar við setjum leiðina fram í upphafi þá er þetta bráðaaðgerð. Þá var strax rætt um að þetta væri mjög opin leið enda var tilgangurinn að tryggja kjör fólks og tryggja ráðningarsamband gagnvart atvinnurekenda í þessu ástandi sem var að myndast mjög hratt,“ segir Katrín.

„Þegar við héldum síðasta blaðamannfund þá kynnti ég að það yrði framhald á leiðinni en hún tæki breytingum og meðal annars yrði sett skilyrði fyrir þátttöku fyrirtækja í leiðinni. Þar erum við að reikna með því að setja inn svipuð skilyrði og við höfum sett inn í aðrar leiðir, til dæmis hvað varðar tekjufall fyrirtækja, arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum. Síðan verður viðurlagaákvæði útfært líka,“ bætir hún við.

Ekki verið skoðað að skilyrðin virki afturvirkt

Katrín gerir ekki ráð fyrir því að slík skilyrði muni virka afturvirkt eða að fyrirtæki sem hafa hafa greitt út arð eða keypt eigin bréf og á sama tíma nýtt sér hlutabótaleiðina verði krafin um endurgreiðslu.

„Það hefur ekki verið skoðað hingað til enda erum við sjaldan að setja slík lög með afturvirkum hætti. Ég tel nú að þetta hafi verið mjög skýrt af hálfu löggjafans þegar leiðin var samþykkt að við værum ekki að leggja hana á borðið eins og eitthvað hlaðborð fyrir þá sem ekki þyrftu á henni að halda. Auðvitað gerir maður ráð fyrir því að fyrirtæki virði leikreglurnar og sýni því skilning að við erum að leggja fram lausnir fyrir atvinnulíf í bráðavanda til að tryggja réttindi launafólks.“

Fyrirtæki verði að sýna ábyrgð

„Mér finnst það óviðunandi,“ segir Katrín spurð hvaða henni finnist um að fyrirtæki séu að nýta sér úrræði stjórnvalda án þess að brýn nauðsyn sé fyrir hendi og bætir við: „Og það er engin tilviljun að þessi skilyrði hafi komið inn í frumvörp sem hafa verið lögð fram síðan. En eins og ég segi þá gerir maður þá kröfu að fyrirtæki sýni ábyrgð, ekki síst í svona ástandi eins og nú er, þar sem við erum að reiða okkur á samstöðu.“

Frétta­blaðið greindi frá því í dag að Hag­ar og Skelj­ung­ur hafi bæði keypt eig­in bréf sam­hliða því að nýta hluta­bóta­leiðina. Skelj­ung­ur hafi að sama skapi greitt 600 millj­ón­ir króna í arð í apríl. Áður hef­ur verið greint frá því að á aðal­fundi Öss­ur­ar 12. mars hafi verið ákveðið að greiða eig­end­um fyr­ir­tæk­is­ins 1,2 millj­arða króna í arð. Stuttu síðar var 165 starfs­mönn­um Öss­ur­ar boðið að fara í 50% starf og nýta sér hluta­bóta­leið stjórn­valda.

Mbl.is hef­ur reynt að ná tali af Árna Pétri Jóns­syni, for­stjóra Skelj­ungs og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórn­ar­for­manni Skelj­ungs í dag án ár­ang­urs. Erna Gísla­dótt­ir, stjórna­formaður Haga, vildi ekki veita viðtal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert