Olíumengunin líklega neðansjávar

Svartolíublautur fugl og svo eftir hreinsun hjá Sea Life Trust.
Svartolíublautur fugl og svo eftir hreinsun hjá Sea Life Trust. Ljósmyndir/Margrét Lilja Magnúsdóttir

Svartolíumengun sem skaðað hefur sjófugla við suðurströndina marar mögulega í kafi og sést því ekki á yfirborðinu. Umhverfisstofnun (UST) skoðar nú í samvinnu við Landhelgisgæsluna og með aðstoð haffræðings hjá Hafrannsóknastofnun hvort mengunin geti tengst skipsflaki á hafsbotni.

Nokkurn tíma mun taka að kanna það út frá hafstraumum og öðrum nauðsynlegum gögnum ásamt upplýsingum um staðsetningu skipsflaka á svæðinu, samkvæmt frétt UST.

„Við vonum að það komi fljótlega eitthvað út úr þessum líkanaútreikningum og að það geti að minnsta kosti hjálpað okkur að skilgreina svæði sem ástæða er til að skoða nánar,“ segir Sigurrós Friðriksdóttir, teymisstjóri hjá UST.

Fundist hafa yfir 100 olíublautir fuglar í fjörum í Vestmannaeyjum og við suðurströndina í vetur. UST hefur fengið flestar tilkynningar um svartolíublauta fugla á svæðinu frá Víkurfjöru og vestur fyrir Dyrhólaey, auk Vestmannaeyja. Eins eru dæmi um olíublauta fugla vestur við Þorlákshöfn og Eyrarbakka. Mest hefur fundist af langvíu og æðarfugli en líka stöku skarfur og lundi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Samkvæmt greiningu á sýnum úr fjöðrum fuglanna er í öllum tilvikum um sams konar svartolíu að ræða. Ekki hefur orðið vart svartolíumengunar í fjörum þar sem fuglarnir hafa fundist. Þá hefur ekki heldur sést olíumengun á yfirborði sjávar í flugferðum Landhelgisgæslunnar yfir svæðið eða á gervitunglamyndum frá Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert