„Einna áhugaverðasta lyfið“ komið

Niðurstöður úr rannsóknum á lyfinu remdesivír gefa að sögn prófessors …
Niðurstöður úr rannsóknum á lyfinu remdesivír gefa að sögn prófessors emeritus í líflyfjafræði góða von um árangur. AFP

Einna áhugaverðasta lyfið við Covid-19 um þessar mundir er remdesivír, að sögn Magnúsar Jóhannssonar, prófessors emeritus í líflyfjafræði við Háskóla Íslands. Niðurstöður úr rannsóknum á lyfinu gefa að sögn Magnúsar góða von um árangur en ein þeirra, sem er á meðal betri rannsókna sem hafa verið gerðar á lyfinu, hefur leitt í ljós að tími veikinda styttist um 30% hjá þeim sem fá lyfið.

Remdesivír er komið á Landspítalann í tíu skömmtum, sem duga hver fyrir tíu daga meðferð. Ekki hefur verið notast við lyfið, en það er að sögn yfirlæknis smitsjúkdómadeildar tilbúið ef þurfa þykir.

Hugleiðingar Magnúsar er að finna í svari hans á Vísindavefnum við þeirri spurningu hvort lyfið „gagnist“ við Covid-19. Magnús útskýrir í grein sinni að til þess að lyf geti verið sagt gagnast við tilteknum sjúkdómi þurfi meðferðin að „slá verulega á sjúkdómseinkenni“ og „fækka dauðsföllum“ og að það þurfi hún að gera án alvarlegra aukaverkana.

Aukaverkanir eru nokkuð vel þekktar vegna þess að talsverður fjöldi sjúklinga hefur fengið lyfið. Langalgengasta aukaverkunin er eiturverkun á lifur sem er algeng en yfirleitt ekki hættuleg. Af öðrum mögulegum aukaverkunum má nefna öndunarerfiðleika, skerta nýrnastarfsemi, ógleði, niðurgang, útbrot og lágan blóðþrýsting. Stundum hefur þurft að stöðva meðferðina vegna aukaverkana.

Hvorki rannsakendur né þátttakendur mega vita hver fær lyfið í rannsókninni

Einungis hafa birst bráðabirgðaniðurstöður úr rannsóknum á remdesivír og niðurstöður rannsókna eru enn um sinn misjafnar að gæðum. Nú standa þó yfir stórar og vandaðar rannsóknir sem munu á næstu mánuðum leiða í ljós hvort lyfið sé í raun og veru vænlegur kostur í baráttunni við Covid-19.  

Slíkar rannsóknir þurfa að sögn Magnúsar að vera bæði tvíblindaðar og gerðar með slembivali. „Rannsóknir eru tvíblindaðar þegar hvorki þátttakendur né rannsakendur vita hver fær rannsóknarlyfið og hver fær lyfleysu fyrr en rannsókninni er lokið. Rannsóknir eru með slembivali þegar hending ræður hver fær lyf og hver fær lyfleysu. Rannsóknir sem ekki uppfylla þessi skilyrði geta einungis gefið vísbendingar,“ útskýrir Magnús.

Lyfið var upprunalega þróað sem lyf við ebóluveirusýkingu og skyldum sjúkdómum. Það var notað í rannsóknaskyni í ebólu-faraldrinum 2013-16 og aftur í faraldrinum 2018-19 en þá kom í ljós að lyfið stóð ekki undir væntingum og var notkun þess að mestu hætt, að sögn Magnúsar. Í janúar 2020 vaknaði síðan áhugi á að prófa lyfið við Covid-19 og fljótt kom í ljós að það hafði virkni gegn veirunni sjálfri, SARS-CoV-2, en hvort það gagnist í meðferð við sýkingu af henni liggur ekki fyrir fullvissa um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert