Trampólín að seljast upp á landinu

Krakkar í Hlíðahverfinu í Reykjavík á trampólíni.
Krakkar í Hlíðahverfinu í Reykjavík á trampólíni. mbl.is/​Hari

Sala á trampólínum hefur verið gríðarlega mikil að undanförnu hér á landi. Í Húsasmiðjunni og Byko eru þau að seljast mun hraðar en venjulega og á vefsíðunni trampolin.is eru þau þegar orðin uppseld.

„Það kom bara hvellur strax í vor. Um leið og sumarið fór að láta sjá sig var eins og allir kæmu fagnandi inn í sumarið enda er veturinnn búinn að vera mjög erfiður,“ segir Kristinn Einarsson, framkvæmdastjóri verslanasviðs Húsasmiðjunnar.

Hann segir trampólínin nánast uppseld og hefur það gerst mun fyrr en venjulega. Um 20% fleiri hafa selst í ár miðað við á sama tíma í fyrra. Að sögn Kristins hefur trampólínskammturinn sem venjulega er pantaður yfirleitt dugað fram eftir júní en núna er hann að klárast. Venjulega seljast um 400 til 500 stykki á hverju ári.

Spurður út í ástæðuna fyrir þessum aukna áhuga segir hann að veturinn hafi verið mjög erfiður og fólk þurfi tilbreytingu. Einnig er fólk ekki að fara til útlanda vegna kórónuveirunnar og skellir í staðinn upp trampólíni í garðinum sínum fyrir krakkana.

Verið er að panta fleiri trampólín frá útlöndum og koma þau í gámum á næstunni.

Einnig er verið að panta fleiri slík í Byko. Þar hefur salan sömuleiðis verið framar vonum. Óli Róbert Sigurbjargarson, aðstoðarverslunarstjóri í Breidd, segir söluna hafa verið mikla og að hún hafi aukist til muna frá því í fyrra. Trampólínin eru að verða uppseld og það töluvert fyrr en venjulega, rétt eins og í Húsasmiðjunni.

Á vefsíðunni trampolin.is kemur fram að öll trampólín fyrir þetta sumar séu uppseld. Frá því fyrirtækið var stofnað árið 2013 hefur það selt um 2.500 stykki. „Þökkum fyrir frábærar viðtökur,“ segir á síðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert