Veitingaleyfi, og vínið flæðir í algleymingi

Veit­ingastaðir bæj­ar­ins eru marg­ir þétt setn­ir þessa sól­ar­daga og áfengi …
Veit­ingastaðir bæj­ar­ins eru marg­ir þétt setn­ir þessa sól­ar­daga og áfengi selt í lítra­vís. Opið er til 23 á kvöld­in en það sama gild­ir ekki um bari, jafn­vel þó að eðli starf­sem­inn­ar sé hið sama á kvöld­in. AFP

Það er ekki sama, veitingastaður og bar, nema að því leyti að þetta er eiginlega nákvæmlega það sama eftir kvöldmat. Þétt er setið, ölið kneyfað og tveggja metra reglan er víðs fjarri. Eini munurinn þessa stundina er þó sá að barir eru ólöglegir en veitingahúsin fá kærkomnar tekjur í kassann eftir magra tíð. 

Kráareigendur harma að fá ekki að taka þátt í gleðinni, enda er engin augljós ástæða fyrir því að þeir fái ekki að bjóða upp á sömu þjónustu. Maður þarf veitingaleyfi til að fá að hafa opið, sem sé að uppfylla skilyrði um að hafa „súpu eða kringlu“ til sölu á einhverjum tímapunkti dags, eins og Árni Hafstað orðar það í samtali við mbl.is. 

Árni Hafstað veitingamaður segir mismunun eiga sér stað á milli …
Árni Hafstað veitingamaður segir mismunun eiga sér stað á milli bara og veitingastaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mismunun í gangi á milli eigenda kráa annars vegar og veitingastaða hins vegar,“ segir Árni, sem á Micro bar í miðbæ Reykjavíkur og í Kópavogi. Starfsemin sem færi fram inni á Micro bar, væri hún leyfð, væri sú sama og fer þegar fram inni á fjölda veitingastaða. En Árni er ekki með veitingaleyfi.

Þétt setið, drukkið, etið

Eftir að samkomubann fór að taka til 50 manna í vikubyrjun hafa veitingastaðir margir verið smekkfullir af gestum öll kvöld til ellefu og þar er tveggja metra reglan víða látin lönd og leið, eins og sá sem hér skrifar hefur sjálfur orðið vitni að.

Eins og Árni bendir á eru staðirnir fullsetnir fram á kvöld og langflestir eru einungis í víni, en ekki að borða. „Fólk er ekki einu sinni að fá sér franskar,“ segir Árni. „Veitingamenn eru langflestir hættir að sjóða grautinn eftir átta eða níu þannig að þeir sem eru að koma inn eftir það eru einfaldlega ekki að fá sér mat heldur bara drykk.“

Hver er munurinn?

Árni vísar til þess sem sagt var frá í gær, aðlögreglan hefði lokað bar í Hafnarfirði vegna brots á sóttvarnalögum, en þar voru sex viðskiptavinir inni og einn starfsmaður. 

„Hver er munurinn?“ spyr hann.„Þversögn laganna kristallast þegar lögreglan þarf að eyða tíma sínum í að loka stað með sex mönnum á meðan 50 eru samankomnir á næsta stað án þess að það sé ámælisvert.“

Mjög er þrengt að eigendum kráa, þar sem þetta ástand kemur sér líka vel fyrir veitingastaðina, sem fá viðskiptin sem annars hefðu farið til kráa. „Þannig að ef fram fer sem horfir munu staðirnir sem lifa verða veitingastaðirnir á meðan kráin við hliðina sem þurfti að loka deyr.

Barinn betri staður út frá sóttvörnum

Barinn væri í þessum samanburði að vissu leyti skárri vettvangur, segir Árni, þar sem þar koma ekki endilega eins margir saman. Sóttvarnalæknir hefur aðspurður sagt að hann telji mismunandi áhættu á smiti eftir mismunandi starfsemi og að smithættan sé meiri á börum en öðrum stöðum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ekki talað á þá leið að …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ekki talað á þá leið að barir megi opna þegar næst verður slakað á klónni 25. maí. Ljósmynd/Almannavarnir

Árni segir á hinn bóginn að barir gætu í mörgum tilfellum veitt betra rými til að virða sóttvarnareglur, þar sem þar eru til dæmis ekki þjónar sem ferðast á milli borða í mannþröng með mat og drykk handa gestum, heldur er kostur á að sækja drykkina við barinn og gæta þannig alltaf að tveggja metra reglunni.

Sömuleiðis segir Árni að ef barir fengju að hafa opið til 23 eins og veitingahús myndi álagið dreifast betur milli staða og þannig stuðla að minni mannþröng í bænum. Sóttvarnalæknir hefur ekki talað á þá leið að barir megi opna þegar næst verður slakað á klónni 25. maí. Fjöldatakmörk verða þó líklega rýmd í 100-200 manns og veitingastaðir geta þá enn aukið við starfsemi sína.

„Ég undirstrika ánægju mína að fólk sé aftur að koma saman á veitingahúsum en það myndi hins vegar enn auka á hana ef við nytum réttar til að veita sömu þjónustu. Er kjörorðið ekki að við séum öll á sama báti í þessari baráttu?“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert