Við munum fá aftur svona faraldur

„Við munum fá aftur svona faraldur. Alveg klárlega. Hvenær það …
„Við munum fá aftur svona faraldur. Alveg klárlega. Hvenær það verður veit ég ekki og hvort það verður heimsfaraldur inflúensu, önnur tegund af kórónuveiru eða alveg ný veira, það veit ég ekki,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. mbl.is/Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er orðinn heimilisvinur flestra Íslendinga enda sést hann daglega á skjáum landsmanna. Hann er alltaf skýr, yfirvegaður og traustur enda veit hann sínu viti. Þórólfur er sérfræðingur í barnalækningum og smitsjúkdómum, doktor í lýðheilsuvísindum og hefur gegnt embætti sóttvarnalæknis í fimm ár. Í kórónuveirufaraldrinum sem gengur nú yfir er gott að vita af honum í brúnni.

Ræturnar í Eyjum

Þórólfur er fæddur á Hvolsvelli í október árið 1953, en foreldrar hans, Guðni B. Guðnason og Valgerður Þórðardóttir, eru bæði ættuð úr Rangárvallasýslu. Er Þórólfur í miðju þriggja bræðra.

Fjölskyldan flutti austur á Eskifjörð þegar Þórólfur var á öðru ári, en faðir hans fékk þar stöðu kaupfélagsstjóra. Þegar Þórólfur var á níunda ári fluttu þau til Vestmannaeyja og bjó Þórólfur þar fram á unglingsár.

„Rætur mínar liggja í Vestmannaeyjum. Við Víðir eigum margt sameiginlegt þar,“ segir Þórólfur og segist eiga þaðan afar ljúfar minningar.

„Þarna var mikið íþróttalíf og það var mikið leikið úti í náttúrunni. Ég byrjaði einnig í tónlist, þannig að það var aldrei dauð stund, en í bænum var mikið músíklíf. Ég hafði aldrei kynnst svona mikilli músík,“ segir Þórólfur.

„Móðurbróðir minn var læknir, merkilegur maður, góður og klár. Mér fannst hann góð fyrirmynd. Ég byrjaði svo í læknisfræði haustið 1973 og þá fór þáverandi kærasta mín, núverandi eiginkona, í sjúkraþjálfunarnám til Danmerkur,“ segir hann, en þess má geta að konan í lífi Þórólfs heitir Sara Hafsteinsdóttir og er yfirsjúkraþjálfari á Landspítala Fossvogi, og eiga þau tvo uppkomna syni. Þau hafa þekkst allt frá æskuárunum í Vestmannaeyjum.

„Ég elti Söru til Danmerkur og fór í læknisfræði í Árósum en kláraði það svo hér heima.“

Vorum búin undir faraldur

Við snúum okkur að máli málanna, hinni illræmdu kórónuveiru. Fáir hér á landi vita jafn mikið um hana og Þórólfur.

Áttir þú von á að svona faraldur gæti herjað á heiminn?

„Já, það kom mér ekkert á óvart en það kom mér kannski á óvart að það væri kórónuveira. Þó eru þekktir faraldrar af hennar völdum, eins og Sars-veiran árið 2002 og Mers-veiran 2012. Þeir sem hafa lært um smitsjúkdóma, faraldsfræði og lýðheilsufræði sjá að saga mannkyns er full af svona faröldrum sem ríða yfir heimsbyggðina með reglulegu millibili og valda mjög miklum usla. Saga Íslendinga er full af þessu líka í gegnum aldirnar. Síðasti alvarlegi stóri faraldurinn hér var Spánska veikin 1918. Þetta er því mjög vel þekkt og við höfðum búið okkur undir þetta. Svona heimsfaraldur inflúensu gengur yfir á þrjátíu ára fresti, þó að enginn hafi valdið eins miklum usla og 1918. Sá síðasti var hér árið 2009; svínaflensan. Hún var nokkuð alvarleg en það fannst fljótt bóluefni og hægt var að ráða við hana betur,“ segir Þórólfur og segir undirbúning hafa staðið lengi yfir á milli sóttvarnalæknis, almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og annarra stofnana.

Heimsfaraldur kemur aftur

Getum við átt von á fleiri faröldrum á næstunni og þá jafnvel verri en þessum, eins og ebólu?

„Já, en ekki ebólu. Hún er allt öðruvísi; hún smitast ekki auðveldlega milli einstaklinga heldur þarf snertingu við blóð eða vessa frá sjúklingum. Við myndum aldrei fá svona útbreiddan faraldur af völdum ebólu. En fyrir þá sem hana fá eru 50% líkur á dauða, en þetta er allt öðruvísi sýking. En svarið er já, við munum fá aftur svona faraldur. Alveg klárlega. Hvenær það verður veit ég ekki og hvort það verður heimsfaraldur inflúensu, önnur tegund af kórónuveiru eða alveg ný veira, það veit ég ekki. Þetta er ekkert búið, þetta kemur aftur. Það eina sem við vitum er að heimsfaraldur inflúensu kemur á 30-40 ára fresti, og svo aðrar veirur líka. Þess vegna þurfum við alltaf að vera í startholunum og tilbúin að eiga við þetta.“

Meiri útbreiðsla en staðfest smit

Nú eru afar fá smit að greinast og því litlar líkur á að maður smitist. Eru aðgerðir ekki full strangar núna?

„Þessi sýking er þannig að margir eru með veiruna í sér en eru einkennalausir og vita því ekkert af því. Við vitum að það er meiri útbreiðsla en greind sýni gefa til kynna. Þessir einkennalausu eða einkennalitlu geta smitað. Ef einn slíkur einstaklingur fer inn á hjúkrunarheimili að heimsækja ömmu sína og kastar svo kveðju á nágrannana gæti þessi eini einstaklingur, áður en hann veit af, verið búinn að smita allt hjúkrunarheimilið. Og það er fólkið sem fær sjúkdóminn illa og dánartíðnin er há. Þetta getur blossað upp, eins og gerðist í Bolungarvík, Ísafirði, Vestmannaeyjum og á Hvammstanga. Þess vegna þurfum við að vera með svona strangar aðgerðir. Það er betra að fara hægt og halda þessu niðri en að fara of hratt og fá allt í einu upp stórar hópsýkingar hér og þar og þurfa að bakka. Það væri ekki gaman að þurfa að fara aftur niður í tuttugu manna regluna og að þurfa að stoppa starfsemi víða. Við viljum komast í mark upprétt.“

Sérðu fyrir þér hvað það tekur langan tíma fyrir kórónuveiruna að deyja alveg út?

„Það gæti tekið eitt til tvö ár, myndi ég halda.“

Ítarlegt viðtal er við Þórólf í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »