Fyrirspurnadrottningar og -kóngar

Á síðustu 30 árum hafa 8.188 fyrirspurnir verið lagðar fram …
Á síðustu 30 árum hafa 8.188 fyrirspurnir verið lagðar fram á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í vikunni var uppákoma á Alþingi þar sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, neitaði að skrifa upp á fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, með þeim rökum að hún væri of umfangsmikil og vísaði um leið til þess að fyrirspurnir ættu að vera stuttar og hnitmiðaðar. Sagði hann jafnframt að fyrirspurnin myndi að öllum líkindum skiptast upp í 60-80 fyrirspurnir, en þegar þetta er skrifað eru þær orðnar 25 talsins.

Fyrirspurnir Björns hafa áður ratað í fjölmiðla, en árið 2018 sagði Bjarni Benediktsson í ræðustól Alþingis að líklega hefðu aldrei jafn margar og viðamiklar fyrirspurnir borist Stjórnarráðinu og nefndi hann fyrirspurnir Björns Leví sem dæmi. „Er ein­hver hér í saln­um mér sam­mála um að þetta er komið út í tóma þvælu?“ sagði Bjarni við það tækifæri, en Björn svaraði honum til að fyrirspurnir þess þings væru enn þá um 40 færri en þegar mest hefði látið.

Er einhver eðlilegur fjöldi fyrirspurna?

En hver er eðlilegur fjöldi fyrirspurna og er Björn Leví almennt að leggja fram meiri fjölda en þeir sem áður hafa komið? mbl.is kafaði aðeins ofan í tölur um fyrirspurnir síðustu þrjátíu ára til að skoða þetta nánar og finna út hver er fyrirspurnadrottningin eða -kóngurinn á síðustu áratugum. Meðal þess sem sjá má er að fyrirspurnir þar sem óskað er eftir munnlegu svari virðast á undanhaldi og að Björn Leví er eftir allt saman ekki fyrirspurnakóngur yfir þetta þrjátíu ára tímabil, en með sama áframhaldi gæti hann náð titlinum innan skamms tíma.

Steingrímur J. er bæði þingforseti og með lengstan starfsaldur núverandi þingmanna. Í samtali við mbl.is segir hann að þegar horft sé til fyrirspurna þurfi að hafa nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi sé sárasjaldgæft að ráðherrar leggi fram fyrirspurnir til annarra ráðherra. Segist hann reyndar ekki muna eftir einu slíku dæmi. Þá dragi líka jafnan úr fyrirspurnum þegar þingmenn séu stjórnarmegin í þinginu. Þetta skýrist af því að stjórnarþingmenn geti jafnan leitað upplýsinga til ráðherra eigin ríkisstjórnar og að slíkar fyrirspurnir séu jafnvel í samráði við ráðherra til að fá umræðu um gögn, frekar en endilega að sinna aðhaldshlutverki.

Mikilvægt tæki til að veita aðhald

Hann ítrekar hins vegar að fyrirspurnartækið sé gríðarlega mikilvægt tæki sem sé varið af rétti stjórnarskrár og lögum. „Þetta er mikilvægt tæki og áhald til að veita aðhald,“ segir hann, en þá þurfi þær að uppfylla skilyrði um að vera skýrar, um afmarkað efni og beinast að þeim ráðherra sem fer með viðkomandi mál. Að lokum þurfa fyrirspurnirnar að vera þannig að hægt sé að svara þeim í stuttu máli.

Steingrímur segir að þótt standa þurfi vörð um þetta tæki geti mikið fyrirspurnaflóð leitt til þess að bitið í þessu tæki slævist. Segir hann að fjöldi flokka á þingi undanfarin ár geti einnig haft áhrif, enda sé tækið oft notað til að vekja athygli á málum sem flokkarnir berjist fyrir og þegar fleiri flokkar séu í stjórnarandstöðu sé meiri samkeppni um að koma sínum málum á framfæri.

Eins og fyrr segir voru fyrirspurnir síðustu 30 ára skoðaðar, en sá árafjöldi var ákveðinn með það í huga að sjá tölur yfir fleiri en eina kynslóð þingmanna.

Topp 5

Á myndinni hér að neðan má sjá hvaða fimm þingmenn voru með flestar fyrirspurnir á þessu tímabili, auk þess sem tveir næstu núverandi þingmenn á listanum fá að fljóta með, en Guðlaugur er jafnframt síðasti þingmaðurinn sem nær yfir 100 fyrirspurnir á þessu tímabili.

Sagan er þó ekki öll sögð út frá fjölda fyrirspurna, því árafjöldi á þingi er talsvert mismunandi. Þannig var Jóhanna Sigurðardóttir, sem situr í efsta sæti, á þingi í 23 ár innan þessa tímabils og reyndar 12 ár þar á undan líka. Var hún á þessum 23 árum með 11,1 fyrirspurn að meðaltali á ári. Þess má til gamans geta að árin á undan var Jóhanna með 53 fyrirspurnir og því í heild 308 fyrirspurnir og 8,8 að meðaltali á ári.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram flestar fyrirspurnir á Alþingi á …
Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram flestar fyrirspurnir á Alþingi á síðustu 30 árum. Með sama áframhaldi er þó líklegt að Björn Leví Gunnarsson muni taka þann titil fljótlega. mbl.is/Kristinn

47,5 fyrirspurnir að meðaltali á ári

Björn Leví er með 190 fyrirspurnir, miðað við stöðu mála á föstudaginn. Hann hefur setið á þingi í fjögur ár, en það gerir 47,5 fyrirspurnir að meðaltali á ári. Verði hann við því að senda inn allar fyrirspurnirnar sem Steingrímur talaði um fyrr í vikunni gæti fyrirspurnafjöldi Björns farið fljótlega upp í 235-255.

Margrét Frímannsdóttir sat á þingi frá 1988 til 2007. Hún er með 168 fyrirspurnir á fyrrgreindu tímabili. Eru það 9,88 fyrirspurnir að meðaltali á ári. Sé fyrstu tveimur árum hennar á þingi bætt við bætast 15 fyrirspurnir við og meðaltalið fer niður í 9,63 fyrirspurnir á ári.

Í fjórða sæti er Einar K. Guðfinnsson, en hann lagði fram 161 fyrirspurn á árunum 1991 til 2016, eða 6,44 fyrirspurnir á ári. Kristinn H. Gunnarsson var með 159 fyrirspurnir á árunum 1991 til 2009, eða 8,83 fyrirspurnir á ári.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram 47,5 fyrirspurnir …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram 47,5 fyrirspurnir að meðaltali á síðustu árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eins og sjá má af þessari upptalningu er Björn Leví í sérflokki þegar kemur að fjölda fyrirspurna á ári meðal þessara efstu fimm. Hann heldur hlutfallslega toppsætinu þótt farið sé neðar á listann, en Vigdís Hauksdóttir kemst næst honum af þeim sem eru með yfir 100 fyrirspurnir. Var hún með 17,86 fyrirspurnir á ári frá 2009 til 2016, eða samtals 125 fyrirspurnir. Þar á eftir kemur Hjörleifur Guttormsson með 15,22 fyrirspurnir á ári á árunum 1990 til 1999, samtals 137 fyrirspurnir.

Ekki var framkvæmd nákvæm talning á þingárafjölda allra þingmanna þar á eftir, en þegar horft er til nýrra þingmanna sem eru nokkuð ofarlega á lista má meðal annars sjá að Ólafur Ísleifsson er með 24,33 fyrirspurnir á árunum 2017 til 2020, eða samtals 73 fyrirspurnir. Þá er Andrés Ingi Jónsson með 62 fyrirspurnir í heildina á árunum 2016 til 2020, eða 15,5 fyrirspurnir á ári.

Hér má svo sjá hvernig fyrirspurnafjöldi formanna þingflokka er í dag

Munnlegar fyrirspurnir á undanhaldi

Þegar rýnt er í hlutfall fyrirspurna þar sem óskað er eftir munnlegum svörum á móti hlutfalli fyrirspurna þar sem óskað er eftir skriflegum svörum sést að Jóhanna óskaði í 69,8% tilfella eftir skriflegum svörum. Björn Leví óskaði í 95,3% tilfella eftir skriflegum svörum, en hlutfallið er talsvert lægra hjá þeim sem næst koma á listanum. Margrét Frímannsdóttir óskaði þannig aðeins eftir skriflegum svörum í 38,7% tilfella og Einar K. í 50,3% tilfella. Hjá Kristni H. var hlutfallið 56,6%.

Þegar allar fyrirspurnir þessa þrjátíu ára tímabils eru teknar saman eru þær 8.188 í heildina. Þar af eru fyrirspurnir þar sem óskað er eftir skriflegu svari 4.890, eða 59,7% á meðan fyrirspurnir þar sem óskað er eftir munnlegu svari eru 3.298, eða 40,3%.

Fyrirspurnir þar sem óskað er eftir munnlegum svörum eru á …
Fyrirspurnir þar sem óskað er eftir munnlegum svörum eru á undanhaldi á kostnað skriflegra svara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steingrímur, sem sjálfur er með hlutfallið 24,2%, segir við mbl.is að munnlegu fyrirspurnirnar hafi verið miklu meira notaðar áður og fljót athugun á hlutföllum efstu manna á listanum virðist styðja þá frásögn hans. „Þetta form er á miklu undanhaldi.“ Segir Steingrímur að sér þyki einnig sorglegt að munnlegu fyrirspurnirnar séu ekki notaðar meira, enda gefi þær tækifæri fyrir fyrirspyrjanda til að eiga orðastað við ráðherra auk þess sem aðrir þingmenn geti þá skotið inn athugasemdum. „Það leiðir oft til góðrar umræðu,“ segir hann.

Mest 92 fyrirspurnir á einu þingi

Björn Leví leiðir einnig listann yfir flestar fyrirspurnir á einu þingi, en á 148. þingi, frá 2017 til 2018, var hann samtals með 92 fyrirspurnir og þingið eftir það með 83 fyrirspurnir. Til samanburðar var Jóhanna mest með 53 fyrirspurnir á þinginu sem náði frá 2003 til 2004 og Margrét með 37 fyrirspurnir þingið frá 2001 til 2002.

Á undanförnum árum hefur hefur stjórnsýslan hér á landi breyst mikið og gögn eru nú mun opnari en var áður fyrr. Þannig er auðvelt að nálgast ýmsar hagtölur og upplýsingar frá stofnunum og ráðuneytum á vefnum, auk þess sem hægt er að fletta upp opinberum reikningum. Steingrímur segir að í þessu ljósi hafi hann talið að fyrirspurnum myndi fækka, en það hafi ekki orðið raunin.

Er tímaramminn til að svara raunhæfur?

Í ljósi allra þessara fyrirspurna, sér í lagi þeim sem svara á með skriflegum hætti, hvernig tekst að svara þeim? Steingrímur segir að talsverður tími og vinna fari í þessar fyrirspurnir innan ráðuneytanna og segist hann sjálfur hafa áhyggjur af því að oftar en ekki þurfi að óska eftir fresti til að skila svörum. Veltir Steingrímur því fyrir sér hvort þeir frestir sem gefnir séu, upp á 14 daga, séu raunhæfir, en hann telur að innan við helmingur skriflegra svara berist innan þessa frests.

Segir hann að eðlilegt væri að meta hvort endurskoða þurfi þessi tímamörk. Þá bendir hann jafnframt á að margar fyrirspurnir séu það viðamiklar að eðlilegt gæti verið að óska frekar eftir skýrslum. Þar er þó svipaður tímavandi á ferðinni, en Steingrímur segir ákaflega algengt að óskað sé eftir fresti umfram þær 10 vikur sem skila eigi skýrslum innan.

Lista yfir þá 100 þingmenn sem hafa lagt fram flestar fyrirspurnir síðustu þrjátíu ár má sjá í listanum hér að neðan.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert