„Þetta er grafalvarlegt“

„Það er upplifun einhverra að verið sé að grafa undan …
„Það er upplifun einhverra að verið sé að grafa undan samninganefndunum og sá fræjum til starfsmanna. Þetta er grafalvarlegt,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags, um bréf sem forstjóri Icelandair sendi starfsfólki í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir félagsmönnum verulega brugðið vegna bréfs Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, sem hann sendi starfsfólki í gær þar sem seg­ir að fyr­ir hlut­hafa­fund fé­lags­ins 22. maí verði lang­tíma­samn­inga við flug­stétt­ir að liggja fyr­ir.

„Það er upplifun einhverra að verið sé að grafa undan samninganefndunum og sá fræjum til starfsmanna. Þetta er grafalvarlegt,“ segir Guðlaug í samtali við mbl.is  

Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair til fundar í karphúsinu klukkan 14 í dag. Síðasti fundur í deilunni var á föstudag en boðað var til fundarins í dag með stuttum fyrirvara. Guðlaug vill ekki fullyrða að bréf forstjórans til starfsmanna í gær sé kveikjan að því að boðað sé til samningafundar á sunnudegi. „Sáttasemjari boðar til fundar og okkur ber að mæta.“ 

95% flugfreyja hjá Icelandair vinna nú á uppsagnafresti eftir uppsagnir félagsins í síðasta mánuði þar sem tæplega 900 flugfreyjum var sagt upp. Umræður um bréf forstjórans hafa skapast í Facebook-hópi félagsmanna Flugfreyjufélagsins og þar segir Guðlaug að samninganefnd félagsins hafi lagt á borðið tilboð að langtímasamningi ásamt tilslökunum yfir ákveðið tímabil til að aðstoða fyrirtækið yfir erfiðasta hjallann.

mbl.is