Ummæli ráðherra „til háborinnar skammar“

Sigrún Jónsdóttir forseti LÍS.
Sigrún Jónsdóttir forseti LÍS. Ljósmynd/LÍS

„Mér finnst þau til háborinnar skammar,“ segir Sigrún Jónsdóttir, formaður landssamtaka íslenskra stúdenta þegar ummæli Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, frá því í Silfrinu í morgun eru borin undir hana. 

Ásmundur kvaðst hafa áhyggj­ur af því að of mik­il áhersla sé lögð á að koma hóp­um á at­vinnu­leys­is­bæt­ur frek­ar en að koma þeim í vinnu.

„Ég er ekki hvatamaður þess að hvorki náms­menn né aðrir á at­vinnu­leys­is­bót­um fái fjár­magn úr rík­is­sjóði fyr­ir að gera ekki neitt. Ég hef í raun­inni áhyggj­ur af því að all­ar kröf­ur sem koma fram miða rosa­lega mikið við það að við eig­um að slökkva á öllu og loka öllu, að all­ir vilji fá fjár­magn fyr­ir að gera ekki neitt,“ sagði Ásmund­ur meðal annars.

Sigrún sagði að undanfarnar vikur hefði mikið kapp verið lagt á að vekja athygli á stöðu stúdenta, á þessum erfiðu tímum. Staðan hafi verið kortlögð en niðurstöður kannana meðal námsfólks benda til þess að töluvert atvinnuleysi verði meðal þeirra í sumar.

„Við höfum lagt áherslu á sköpun sumarstarfa samhliða réttinum til atvinnuleysisbóta. Það er einfaldlega vegna niðurstaðna þessara kannana,“ segir Sigrún.

Atvinnuleysisbæturnar eigi þá að vera nokkurs konar „björgunarhringur“ fyrir þá námsmenn sem ekkert sumarstarf fá.

„Rúmlega sjö þúsund stúdentar voru ekki komnir með sumarstarf um miðjan apríl,“ segir Sigrún og bætir við að síðan þá hafi fjölda fólks hafi verið sagt upp í hópuppsögnum í lok apríl.

„Staðan verður því stöðugt svartari,“ segir Sigrún. Henni þykja ummæli ráðherra lýsa algjöru skilningsleysi á stöðu stúdenta.

„Ég held að ef maður myndi bjóða námsmanni val á milli þess að vinna eða gera ekki neitt myndi ég veðja öllu mínu á að námsmaðurinn myndi vilja vinna,“ segir Sigrún.

„Nú er ekkert val; bara skortur á störfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert