Vilja gefa eftir 25% í kjörum

Jón Þór Þorvaldsson er formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Jón Þór Þorvaldsson er formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna. mbl.is/Hari

Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur boðið samninganefnd Icelandair tilboð um nýjan kjarasamning við flugmenn sem felur í sér 25% hagræðingu og kostnaðarlækkun fyrir félagið, ef marka má orð Jóns Þórs Þorvaldssonar, formanns FÍA.

„Það eru rúm 25% sem við erum tilbúnir að gefa eftir í okkar kjörum, sem lýtur að launum, orlofi, helgarfríi og auknum vinnutíma,“ segir Jón Þór í samtali við mbl.is.

Samkvæmt tillögu að samningi sem flugmenn hafa lagt fram við samninganefndina munu laun flugmanna lækka og þeir vinna meira. Jón setur tillögurnar í samhengi við lífskjarasamninginn en tekur fram að tillögurnar núna eru tillögur til frambúðar, en ekki tímabundin launalækkun.

Skref í átt að því að geta fengið lán frá ríkinu

Aðgerðir sem þessar eru liður í að auka samkeppnishæfni félagsins svo að hluthafar séu líklegri til þess að vilja fjárfesta í því til framtíðar. Það er líklegra ef hár launakostnaður er fjárfestum ekki þyrnir í augum. Komið hefur fram að til þess að Icelandair fái lán frá íslenskum stjórnvöldum þurfi það að sýna að hluthafar hafi trú á því með hlutafjáraukningu.

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta félag þarf að vera samkeppnishæft á markaði. Við erum það núna en við viljum vera það áfram og að það verði einfaldlega bara erfitt að keppa við okkur,“ segir Jón Þór.

Hann hefur trú á að þessir nýju samningar muni auka trú hluthafa á félaginu. Sagan geri það líka, en Jón segir skemmst að minnast þess þegar Framtakssjóður Íslands kom með hlutafé inn í fyrirtækið eftir bankahrunið 2008 og að það fjármagn hafi síðan ávaxtast um 314% á um þremur og hálfu ári. Þessu til viðbótar sé það til marks um traustið sem fyrirtækið nýtur að DB Schenker sé að nýta þjónustu þess í fraktflutningum nú um mundir.

Sú litla starfsemi sem er stunduð á vegum Icelandair þessa …
Sú litla starfsemi sem er stunduð á vegum Icelandair þessa stundina felst meðal annars í flutningum fyrir DB Schenker.

Þarf að liggja fyrir í tæka tíð fyrir hluthafafund 22. maí

Ljóst er að Icelandair er að leitast mjög við að lækka launakostnað til þess að sýna hluthöfum að rekstrarmódelið sé arðbært til framtíðar. Í dag kom fram að félagið er að fara kjaraskerðingar á leit við flugfreyjur, en enn á eftir að koma í ljós hvort það gangi eftir.

Fyrir sitt leyti er Jón bjartsýnn um að Icelandair gangi að tillögum flugmanna um umrædda skerðingu. „Mér fyndist það skrýtið ef það yrði ekki gert,“ segir hann. Samningarnir þurfa að liggja fyrir fyrir 22. maí, en þá er hluthafafundur hjá félaginu, þar sem endurfjármögnun félagsins verður efst á baugi.

Gildandi kjarasamningur Icelandair við flugmenn ætti að gilda út september og undir eðlilegum kringumstæðum væri vitanlega ekki verið að semja um nýjan núna. Staðan kallar þó augljóslega á það. Löngu fyrir heimsfaraldur var félagið farið að leita hagræðingarleiða til að auka samkeppnishæfni þess við önnur félög á sama markaði. Þörfin er síst orðin minni.

mbl.is
Loka