Sakar ráðherra um að dreifa falsfréttum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Johannes Jansson/norden.org

Stjórnvöld í Ungverjalandi saka norrænu ríkin fimm um að dreifa falsfréttum um neyðarlög í landinu vegna kórónuveirunnar. Með nýju lögunum eru nánast öll völd sett í hendur forsætisráðherra landsins, Viktor Orbán. 

Ung­verska þingið samþykkti í lok mars að rík­is­stjórn lands­ins geti stjórnað land­inu með til­skip­un­um meðan á kór­ónu­veirufar­aldr­in­um stend­ur. Til­lagan er ótíma­bund­in. Leiðtogi stjórn­ar­and­stöðunn­ar, Peter Jakab, seg­ir að með samþykkt til­lög­unn­ar hafi ung­verskt lýðræði verið sett í sótt­kví.

Veitti sendiherrum fimm ríkja tiltal

Samþykkt til­lög­unn­ar hef­ur ekki aðeins hlotið gagn­rýni ung­verskr­ar stjórn­ar­and­stöðu held­ur einnig frá alþjóðleg­um sam­tök­um og mann­rétt­inda­fé­lög­um, sér í lagi vegna þess að völd­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar er eng­inn tím­arammi sett­ur, en þá kveður til­lag­an einnig á um aðgerðir gegn rangri upp­lýs­inga­gjöf, sem hætt er við að stjórn­völd mis­noti til að þagga niður í ein­k­arekn­um fjöl­miðlum og sjálf­stæðum blaðamönn­um.

Utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Szijjarto, hefur veitt sendiherrum ríkjanna fimm, Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, tiltal og segir að utanríkisráðherrar landanna hafi dreift ósönnum fullyrðingum varðandi neyðarlagasetninguna. Fram kemur í frétt RÚV að Þór Ibsen, sendiherra Íslands í Ungverjalandi, sé staddur hér á landi. 

Sakaði Sxijjarto alþjóðlegar frjálslyndar fréttaveitur um að dreifa falsfréttum í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér seint í gærkvöldi. Ástæðan fyrir því að hann beinir sjónum sínum að norrænu ráðherrunum er bréf sem norrænu utanríkisráðherrarnir skrifuðu framkvæmdastjóra Evrópuráðsins þar sem þeir tóku undir áhyggjur af viðbrögðum Ungverja við COVID-19.

Lögin verði að virða

Donald Tusk, sem er odd­viti banda­lags hægri­flokka, EPP, hefur farið fram á að stjórnmálaflokki Orbán, Fidesz, verði vísað úr bandalaginu.

Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Marija Pejcinovic Buric, hefur einnig lýst yfir efasemdum við ákvörðun ungverska þingsins í bréfi til Orbán þar sem hún segir að ekki sé tryggt með slíkum aðgerðum að grunnatriði lýðræðisins séu tryggð. Jafnframt sé ekki tryggt að grundvallarmannréttindi séu virt. Í bréfi norrænu utanríkisráðherranna er tekið undir þessar áhyggjur Buric. „Jafnvel í neyðarástandi verður að virða lög,“ skrifa utanríkisráðherrarnir.

Stjórnvöld í Búdapest hafa varið lagasetninguna og segja að þingið geti dregið úr völdum ríkisstjórnarinnar hvenær sem er auk þess sem ríkisstjórnin muni binda endi á neyðarlögin um leið og farsóttinni er lokið. 

„Vita utanríkisráðherrar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs eða Svíþjóðar betur en Ungverjar hvað Ungverjar vilja [...] Þeir ættu að láta sér næga að líta í eigin barm,“ segir Szijjarto.

Ummælin dæmi sig sjálf

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir í samtali við RÚV fullkomlega eðlilegt að lönd grípi til aðgerða vegna kórónuveirufaraldursins. „En við höfum áhyggjur af því að þessar heimildir geymi engin tímamörk og geri ekki grein fyrir því hvenær þessu ástandi muni ljúka. Þær fela í reynd með sér alræðisvald forsætisráðherrans.“

Guðlaugur segir að Íslendingar og hin Norðurlandaríkin hafi einsett sér að halda uppi merki mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis. „Og það er alltaf nauðsynlegt en kannski sérstaklega núna.“

Guðlaugur segir viðbrögð sín við þessum ummælum ungverska utanríkisráðherrans engin. „Þau dæma sig sjálf. Við gerum hins vegar engar athugasemdir við að sendiherrar séu kallaðir á fund, það er alvanalegt. Það er gott fyrir okkur að geta komið skilaboðum okkur áleiðis sem eru skýr.“

Frétt RÚV

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert