Sigmundur Davíð selst betur en Bjarni og Katrín

Álfurinn Sigmundur Davíð er vinsæll.
Álfurinn Sigmundur Davíð er vinsæll. Skjáskot af vef SÁÁ

Stafrænn álfur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur selst miklu betur hjá SÁÁ en stafrænir álfar þeirra Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SÁÁ. Þrenningin Alma, Víðir og Þórólfur er hins vegar söluhæsti álfurinn.

Álfasala SÁÁ hefur verið mikilvægasta fjáröflunarleið samtakanna í þrjá áratugi. Vegna Covid-19-heimsfaraldursins var salan á álfinum stafræn í ár en ljóst varð strax í mars að salan gæti ekki farið fram með hefðbundnum hætti vegna sóttvarna. SÁÁ hóf því samstarf með fyrirtækinu Svartagaldri um þróun og sölu á stafrænum álfum. Hugmyndin byggir á því að selja stafræna útgáfu af álfinum sem fólk getur dreift á samfélagsmiðlum, vakið athygli annarra á stuðningi sínum og á þann hátt stuðlað að auknum sýnileika álfsins.

Í tengslum við sölu stafræna álfsins voru þróaðir álfar eftir þjóðþekktum einstaklingum. Þar má nefna formenn nokkurra stjórnmálaflokka sem eiga kjörna fulltrúa á Alþingi, borgarstjórann í Reykjavík, þríeykið frá daglegum fundum almannavarna og þekkt fólk úr menningar- og viðskiptalífi.

SÁÁ þarf að reiða sig á styrktarfé því þjónusta samtakanna stendur utan við hið hefðbundna heilbrigðiskerfi og framlag ríkisins dugar ekki til að hjálpa öllum þeim sem þurfa á meðferðarþjónustu að halda vegna neyslu áfengis og annarra vímuefna. Þess vegna er sala álfsins gríðarlega mikilvæg til að halda uppi óskertri þjónustu samtakanna, að segir í tilkynningunni.

Nokkrar staðreyndir um sölu stafræna álfsins í ár:

  • Þrenningin Alma, Víðir og Þórólfur er söluhæsti álfurinn.
  • Af öðrum frægum álfum er Daði Freyr vinsælastur, fjórfalt meira seldur en Páll Óskar.
  • Fjölskylduálfar eru í öðru sæti.
  • „Þessi gamli góði“ og hjúkrunarfræðingurinn eru hnífjafnir og mjög vinsælir.
  • Meira en helmingi fleiri kettir seljast en hundar.
  • Vinsælasti stjórnmálamaðurinn er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson en Inga Sæland fylgir fast á hæla hans.
  • Sigmundur Davíð er þrefalt vinsælli en Bjarni Benediktsson.
  • Einungis 1 prestur hefur selst.
  • Konur eru 50% líklegri en karlar til að kaupa stafrænan álf.
  • Eldri kynslóðin hikar ekki við að nýta sér tæknina. Af öllum sem heimsækja álfasöluna er aldurshópurinn 65 ára og eldri langlíklegastur til að kaupa sér stafrænan álf.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert