Tuga prósenta munur á tilboðum

Tuga prósenta munur er á tilboði Icelandair og tilboði flugfreyja í kjaraviðræðum þeirra. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2, en Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, staðfesti í samtali við mbl.is að um væri að ræða tuga prósenta mun. Í fréttum Rúv kom fram að um væri að ræða 40 prósenta kjaraskerðingu. Guðlaug sagði í samtali við mbl.is að ekki væri búið að reikna skerðinguna að fullu en það kæmi sér ekki á óvart að um væri að ræða 40 prósenta skerðingu.

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Guðlaug að fundað hefði verið vegna tilboðs Icelandair í allan dag, en fyrirtækið leggur til að tilboðið verði borið milliliðalaust undir alla félagsmenn í kosningu.

„Við ætl­um að kynna þetta fyr­ir fé­lags­mönn­um og erum bara að ákveða næstu skref,“ sagði Guðlaug og bætti við að óljóst væri hvort kosið yrði um til­boðið. Taka yrði af­stöðu til tilboðsins eft­ir að það hefði verið borið und­ir fé­lags­menn, en til stæði til að gera það í kvöld eða á morgun. 

Ráðgjafi eins af stórum hluthöfum Icelandair sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að til að forða félaginu frá gjaldþroti yrðu flugfreyjur og flugmenn að taka á sig launalækkun á bilinu 50 til 60 prósent. Þá yrði nýr kjarasamningur að gilda til fimm ára, auk þess að vera uppsegjanlegur af hálfu Icelandair að samningstíma loknum.

Flugfreyjufélagið hefur gefið út að félagsmenn séu tilbúnir að gera tilslakanir í einhvern tíma til að aðstoða Icelandair við að komast yfir erfiðasta hjallann. Félagsmenn ætli hins vegar ekki að taka á sig varanlegar skerðingar.

Í gær sendi Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, bréf til starfsfólks félagsins þar sem meðal annars kom fram að starfsfólkið sjálft væri helsta hindrunin í veginum fyrir því að bjarga félaginu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert