77 heimilisofbeldismál til lögreglu

mbl.is/Eggert

Alls bárust 77 tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í aprílmánuði. Það þýðir að á hverjum degi koma tvö til þrjú slík mál til kasta lögreglunnar. Alls hafa 255 heimilisofbeldismál komið á borð lögreglunnar á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Það sem af er ári hafa borist um 11% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en bárust að meðaltali á sama tímabili sl. þrjú ár á undan. Í fyrra voru þau 216 á fyrstu 4 mánuðum ársins. 

Skráðum ofbeldisbrotum fjölgaði töluvert á milli mánaða og voru það minni háttar líkamsárásir sem þar töldu mest. Sömuleiðis fjölgaði tilvikum um ofbeldi og hótun um ofbeldi gagnvart lögreglumönnum. 

Skráð voru 639 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í apríl og fjölgaði þessum brotum á milli mánaða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir apríl 2020. 

Þegar horft er á þróun á löggæslusvæðum er mikil fjölgun hegningarlagabrota á svæði lögreglustöðvar 2 sem nær yfir Hafnarfjörð og Garðabæ (og Álftanes). 

Skráð voru 15 kynferðisbrot í apríl og hefur þeim fækkað en fyrstu fjóra mánuði ársins voru skráð 23% færri kynferðisbrot en að meðaltali síðustu þrjú árin. Þegar litið er til dagsetninga var tilkynnt um sjö kynferðisbrot sem framin voru í apríl. 

Tilkynningar um þjófnaði fækkaði á milli mánaða og var þar helst að sjá fækkun á þjófnaði á farsímum og hnupli. Hins vegar fjölgaði tilkynningum um innbrot á milli mánaða og voru þar innbrot í ökutæki að telja hlutfallslega mest.

Skráðum fíkniefnabrotum fækkar lítillega á milli mánaða og var ekkert stórfelld fíkniefnabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í apríl. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fjölgaði á milli mánaða líkt og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.

Í apríl voru skráð 701 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum). Það sem af er ári hafa verið skráð um 26 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert