Áfall ef áform Icelandair gengju ekki eftir

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á leið af ríkisstjórnarfundi í síðasta mánuði.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á leið af ríkisstjórnarfundi í síðasta mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

„Það væri áfall ef áform Icelandair ganga ekki eftir,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður út í fyrirhugaða endurskipulagningu félagsins og hlutafjárútboð sem væntanlegt er í framhaldinu.

Ríkisstjórnin hefur sett það skilyrði fyrir láni til félagsins að þetta tvennt gangi eftir. Í því skyni reyna forsvarsmenn félagsins nú að semja á ný við flugmenn, flugvirkja og flugfreyjur og hefur verið rætt um tugprósenta kjaraskerðingar til nokkurra ára í þeim efnum.

Fjarfundur Flugfreyjufélags Íslands stendur nú yfir, en þar er tilboð Icelandair til umræðu. Samkvæmt heimildum mbl.is eru um 600 flugfreyjur á fundinum og hljóðið þungt í félagsmönnum sem sætta sig ekki við skerðingarnar.

Aukin framleiðni hluti af aðgerðapakka

Bjarni segir að lengi hafi legið fyrir að bæta þyrfti rekstrarafkomu Icelandair. Nefnir hann í því skyni að félagið hafi verið rekið með um 7 milljarða tapi á ári síðustu tvö ár, löngu áður en kórónuveiran fór að láta á sér kræla.

Spurður hvort þær kjaraskerðingar sem félagið hefur farið fram á hafi verið hluti af aðgerðapakkanum sem Icelandair kynnti fyrir ríkisstjórninni, svarar Bjarni að þær hafi ekki verið nefndar berum orðum. „Það var með mjög almennu orðalagi sem sneri að aukinni framleiðni í fyrirtækinu.“

Ekki komið til tals að slaka á kröfum

Bjarni hefur áður sagt að starfsemi Icelandair megi ekki leggjast af. Spurður hvort ríkisstjórnin muni slaka á kröfum um fjárhagslega endurskipulagningu ef ekki tekst að semja um jafnmiklar kjaraskerðingar starfsmanna og lagt er upp með, segir Bjarni að það hafi ekki komið til tals. „Við erum tilbúin að fara ólíkar leiðir, en æskilegt er að þær gerist á viðskiptalegum forsendum, með stuðningi ríkisins ef þess þarf.“

„Plan B er í raun samhljóða plani A

Höfuðáhersla stjórnvalda sé á samgöngukerfi í flugi sem byggi á Keflavíkurflugvelli sem tengiflugi. „Við höfum verið sammála um að það sé gríðarlega mikils virði bæði fyrir ferðaþjónustuna og í stærra samhengi. Við munum þurfa að taka nýjar ákvarðanir og byggja á þeim upplýsingum sem við höfum á þeim tíma. En plan B er í raun samhljóða plani A,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert