„Gríðarleg óánægja og reiði“

Flugfreyjufélag Íslands hefur óskað eftir því við ríkissáttasemjara að hann boði til fundar með samninganefnd Icelandair vegna kjaradeilunnar sem nú er uppi.

Um sjö hundruð félagsmenn komu saman á rafrænum fundi í hádeginu þar sem samningstilboði Icelandair var einróma hafnað, að sögn Guðlaugar Líneyjar Jóhannsdóttur, starfandi formanns FFÍ.

„Það er gríðarleg óánægja og reiði yfir þessu. Fólki finnst bara hart að því vegið. Þessi skerðing kjara er óásættanleg,“ segir Guðlaug, spurð út í hljóðið í félagsmönnum á fundinum vegna tilboðs Icelandair.

Flugfreyjur lögðu fram tilboð fjórða maí með drög að langtímasamningi og tilslökunum til skemmri tíma. Icelandair hafnaði því og segir Guðlaug að tilboð flugfélagsins hafi falið í sér skerðingu á tilboði FFÍ upp á um 40%. Hún bætir við að staðið verði við tilboðið frá fjórða maí á næsta fundi og að flugfreyjur séu tilbúnar til viðræðna á grundvelli þess.  

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, greindi frá því í bréfi til starfsmanna að samningar þurfi að liggja fyrir áður en hlutahafafundur verður haldinn 22. maí. Flugfreyjufélagið var óánægt með þetta útspil og sagði Icelandair vera að stilla stéttarfélögum upp við vegg.

„Við skiljum pressuna. Við erum fullar samningsvilja til að mæta til fundar til að komast að niðurstöðu sem verður ekki á þeim grundvelli sem Icelandair lagði fram tíunda maí,“ segir Guðlaug.

Icelandair hefur lagt til að engar launahækkanir verði greiddar flugfreyjum til 1. október 2023. Flugfreyjur hafa verið samningslausar frá 1. maí 2018. Guðlaug segir óásættanlegt að stéttin taki á sig fimm ára bið þar sem engar kjarahækkanir komi til á meðan allar aðrar stéttir í þjóðfélaginu fái hækkanir á sama tíma.

Spurð hvort flugfreyjur séu farnar að hugsa sér til hreyfings í önnur störf segir hún alla félagsmenn í uppsögn vera starfandi á uppsagnarfresti sem er þriggja til sex mánaða langur. „Ég veit að fólk myndi ekki sætta sig við að starfa á þessum samningi sem drög að tilboði Icelandair eru byggð á.“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur lýst yfir stuðningi við kjarabaráttu flugfreyja og segist Guðlaug vera ánægð með framlag félagsins. FFÍ njóti liðsstyrks frá sérfræðingum þeirra. „Við erum þeim afskaplega þakklát. Þau sitja með okkur á fundum og eru reiðubúin til að aðstoða okkur á allan þann hátt sem hægt er,“ segir hún.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert