Bréf frá Boga: „Tími okkar er að renna frá okkur“

Bogi segist vilja upplýsa félagsmenn milliliðalaust.
Bogi segist vilja upplýsa félagsmenn milliliðalaust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sendi í dag félagsmönnum í Flugfreyjufélagi Íslands tölvupóst með tillögu Icelandair að þeim kjarasamningi sem félagið hefur boðið flugfreyjum, ásamt skýringum og kynningarbæklingi. Þá gerði hann jafnframt grein fyrir þeirri stöðu sem félagið væri í.

Bréfið hefst á þessum orðum: „Icelandair Group rær nú lífróður og höfum við því miður neyðst til þess að segja upp stórum hluta starfsfólks okkar. Við vinnum nú í kapphlaupi við tímann að því að tryggja framtíð félagsins til lengri tíma og störf okkar allra.“

Í bréfinu segir Bogi tilganginn með póstsendingunni vera að veita upplýsingar um samningstilboð félagsins milliliðalaust, en Flugfreyjufélagið hafði áður sent félagsmönnum tillögurnar með athugasemdum. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður félagsins, hefur sagt í fjölmiðlum að tilboð Icelandair feli í sér allt að 40 prósenta kjaraskerðingu fyrir flugfreyjur, en Bogi hefur neitað því að um svo mikla skerðingu sé að ræða. Það var einhugur um það hjá Flugfreyjufélaginu að hafna tilboði Icelandair.

Segir kjarasamningana byggða á gömlum forsendum 

„Tími okkar er að renna frá okkur. Á þessum tímapunkti viljum við veita ykkur upplýsingar um samningstilboð félagsins milliliðalaust. Það er í samræmi við stefnu okkar um að halda starfsfólki vel upplýstu,“ skrifar Bogi.

Í bréfinu bendir hann á að kjarasamningar flugfreyja byggi á gömlum forsendum, frá þeim tímum þegar samkeppni á markaði var gjörólík þeirri sem er nú.

„Í þeim eru mörg ákvæði sem snúa að vinnuframlagi flugfreyja og flugþjóna sem hafa neikvæð áhrif á sveigjanleika félagsins í samkeppni, til dæmis getu til að fljúga til nýrra áfangastaða. Okkar markmið er að gera nýja kjarasamninga sem taka mið af breyttum aðstæðum og gefa Icelandair aukinn sveigjanleika til að ná árangri en tryggja á sama tíma fyrirmyndar vinnuumhverfi og samkeppnishæf kjör til framtíðar. Flugfélög sem við berum okkur saman við, til dæmis SAS og Finnair, hafa á liðnum áratug gert sambærilegar breytingar á samningum við áhafnir.“

Tillögur flugfreyja ekki til þess fallnar að ná markmiðum

Fundað var í kjaradeilunni í gærkvöldi og í morgun en Icelandair sleit fundinum um hádegisbil. Guðlaug, formaður Flugfreyjufélagsins, sagði í samtali við mbl.is í dag að flugfreyjur væru tilbúnar að eiga samtal á grundvelli þess tilboðs sem félagið lagði til 4. maí síðastliðinn, en Icelandair var ekki tilbúið að halda viðræðum áfram á þeim grunni.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir félagið tilbúið að …
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir félagið tilbúið að ræða tillögur Icelandair frá 4. maí. mbl.is/Árni Sæberg

Í bréfinu segir Bogi tillögur Flugfreyjufélagsins ekki til þess fallnar að ná markmiðum um að tryggja framtíð félagsins. „Við teljum að tillagan sem við lögðum fram sé til þess fallin að auka samkeppnishæfni Icelandair en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og verða við óskum um sveigjanleika í starfi og val um vinnuframlag.“

Þá tiltekur Bogi sérstaklega nokkrar breytingar sem Icelandair óskar eftir að verði gerðar en þær eru að flugtímar í föstum mánaðarlaunum verði 70 í stað 65 hjá þeim sem starfað hafa lengur en í 13 mánuði. Lagt sé til að ein stjórnunarstaða verði um borð í stað tveggja og að sérstakar greiðslur er varði leiguflug falli niður. Þá sé óskað eftir frekari sveigjanleika varðandi ákvæði um flug, vaktir og hvíldartíma sem séu til þess fallin að efla leiðarkerfið og rekstur þess.

Í lok bréfsins hvetur Bogi félagsmenn til þess að kynna sér gögnin vel.

Áhyggjuefni að ekki verði lengra komist

Nú fyrir skömmu sendi Icelandair svo frá sér fréttatilkynningu þar sem gerð er grein fyrir því að viðræður síðustu vikna hefðu ekki borið árangur. Vitnað er í Boga sem segir það áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands.

„Það eru fjölmargir þættir sem verða að ganga upp til að endurfjármögnun Icelandair Group gangi eftir. Einn af þeim eru langtímasamningar við flugstéttir. Sá samningur sem Icelandair bauð flugfreyjum og flugþjónum hefði hvort í senn tryggt samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma og starfsmönnum félagsins áfram góð kjör og gott starfsumhverfi. Áhafnir Icelandair eiga mjög stóran þátt í því að gera Icelandair að því öfluga fyrirtæki sem það er. Það er því áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í þessum viðræðunum við Flugfreyjufélag Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynningin í heild sinni:

Samningafundi Icelandair og FFÍ lauk án niðurstöðu og ekki boðað til nýs fundar

Undanfarna daga og vikur hafa viðræður Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands staðið yfir. Síðastliðinn sunnudag lagði félagið fram tilboð og óskaði eftir því að félagsmenn FFÍ fengju að greiða um það atkvæði. Það gekk ekki eftir. Fundur átti sér stað hjá ríkissáttasemjara í morgun og var niðurstaða hans sú að ekki yrði lengra komist. Ekki hefur verið boðað til frekari funda og ekki útlit fyrir að svo verði.

Viðræður síðustu vikna hafa því miður ekki borið árangur þrátt fyrir góðan vilja beggja vegna borðsins. Þau tilboð sem lögð hafa verið fram af hálfu Icelandair hafa verið til þess fallin að auka samkeppnishæfni félagsins en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og verða við óskum um sveigjanleika í starfi og val um vinnuframlag, t.d. möguleika á hlutastörfum. Markmið Icelandair er að tryggja starfsmönnum sínum góð kjör sem eru samkeppnishæf við það sem sambærileg flugfélög bjóða, svo sem SAS og Finnair. Þau félög hafa á liðnum áratug gert veigamiklar breytingar á kjarasamningum í þeim tilgangi að auka samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum flugmarkaði.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Það eru fjölmargir þættir sem verða að ganga upp til að endurfjármögnun Icelandair Group gangi eftir. Einn af þeim eru langtímasamningar við flugstéttir. Sá samningur sem Icelandair bauð flugfreyjum og flugþjónum hefði hvort í senn tryggt samkeppnishæfni félagsins til lengri tíma og starfsmönnum félagsins áfram góð kjör og gott starfsumhverfi. Áhafnir Icelandair eiga mjög stóran þátt í því að gera Icelandair að því öfluga fyrirtæki sem það er. Það er því áhyggjuefni að ekki verði lengra komist í þessum viðræðunum við Flugfreyjufélag Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert