Dómur yfir Vigfúsi staðfestur

Frá Kirkjuvegi á Selfossi, daginn eftir að eldur kom upp …
Frá Kirkjuvegi á Selfossi, daginn eftir að eldur kom upp í húsinu. mbl.is/Eggert

Vigfús Ólafsson var í dag dæmdur í 14 ára fangelsi í Hæstarétti fyrir að hafa valdið eldsvoða við Kirkjuveg á Selfossi árið 2018 þar sem tvær manneskjur létust.

Áður hafði Héraðsdómur Suðurlands dæmt Vigfús í fjögurra ára fangelsi fyrir brennu og manndráp af gáleysi, en Landsréttur þyngdi dóminn í fjórtán ár fyrir brennu og manndráp. Aðal­krafa héraðssak­sókn­ara var að Vig­fús skyldi dæmd­ur fyr­ir mann­dráp og brennu en til vara fyr­ir mann­dráp af gá­leysi og brennu.

Lét sér „í léttu rúmi liggja hvort eldurinn breiddist út“

Í dómi Hæstaréttar segir að Vigfúsi hafi ekki getað dulist hverjar afleiðingar þess að kveikja eld í stofu íbúðarhússins gætu orðið, „þótt mörk stórfellds gáleysis og lægsta stigs ásetnings geti skarast með ýmsum hætti.“ 

Hæstiréttur taldi Vigfús hafa haft raunverulega vitund um refsinæmar afleiðingar háttsemi sinnar en engu að síður látið það sér í léttu rúmi liggja hvort eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að mönnum yrði lífsháski búinn, stórfellt eignatjón yrði og líklegt væri að þeir sem væru á efri hæð hússins kæmust ekki undan og biðu bana. 

„Komst Landsréttur þannig réttilega að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi á verknaðarstundu haft lægsta stig ásetnings til beggja brotanna,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Í dómi Lands­rétt­ar var vísað til þess að Vig­fús hefði kveikt eld­inn vit­andi að á efri hæð húss­ins væru þau tvö sem lét­ust í elds­voðanum. Þá hefði hann vitað að mik­ill elds­mat­ur væri í hús­inu og ekki getað dulist að svo gæti farið að þau, sem uppi voru, kæm­ust ekki und­an ef kviknaði í hús­inu og lík­legt væri að þau gætu beðið bana, eins og reynd­in hefði orðið. Þrátt fyr­ir að hafa vitað þetta hefði hann kveikt eld sem hefði leitt til þess að tvær mann­eskj­ur lét­ust. Þess vegna hafi hann verið sak­felld­ur fyr­ir mann­dráp. 

„Við ákvörðun refs­ing­ar var litið til þess að ásetn­ing­ur hans hefði ekki verið mjög ein­beitt­ur. Hins veg­ar hefði hann enga til­raun gert til að vara við þau sem voru á efri hæð húss­ins og lét­ust í elds­voðanum eða koma þeim til bjarg­ar,“ seg­ir í reif­un Lands­rétt­ar, þar sem einnig kem­ur fram að Vig­fúsi hafi verið gert að greiða börn­um og for­eldr­um hinna látnu bæt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert