Funda með borgarstjóra um mál Fossvogsskóla

Um er að ræða fund borgarstjóra, formanns skóla- og frístundaráðs, …
Um er að ræða fund borgarstjóra, formanns skóla- og frístundaráðs, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundað verður með borgarstjóra um málefni Fossvogsskóla á morgun. Þetta staðfestir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is, en málefni Fossvogsskóla var tekið fyrir á fundi ráðsins í gær.

Um er að ræða fund borgarstjóra, formanns skóla- og frístundaráðs, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs og fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs. Fréttablaðið greindi frá því að fundað yrði um sýnatökur, en Skúli segir það ekki alveg rétt, heldur væri einfaldlega verið að fara að ræða málefni skólans.

Mikil óánægja er meðal foreldra barna í Fossvogsskóla og hefur foreldrafélag skólans ráðið lögfræðing í tilraun til þess að fá svör frá borginni, en foreldrarnir hafa farið fram á sýnatökur vegna barna sem enn sýna einkenni veikinda eftir hundraða milljóna króna framkvæmdir við skólann eftir að í ljós komu miklar skemmdir í byggingarefni.

Miður að fólk upplifi að borgin hafi ekki gert vel

Í samtali við mbl.is í gær sagði Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, það miður að enn væri óánægja með framkvæmdirnar og að foreldrar upplifðu samskiptaleysi og vantraust. Allt húsnæði skólans hafi verið mælt af óháðum aðilum og að allt sem þurfti að fjarlægja hafi verið fjarlægt og að ef ráðist væri í sýntökur að nýju væri nánast einungis verið að taka sýni úr nýju efni.

„Það er flækjustigið. Við teljum að við höfum gengið eins langt og allar forsendur voru fyrir út frá þessum sýnatökum og svo hvað framkvæmdir leiddu í ljós þegar vinna var hafin. Við vitum ekki hvað það er sem veldur, ef það finnur einhver enn fyrir einkennum eða óþægindum í húsnæðinu þá vitum við ekki af hvaða tegund eða uppruna það er. Þetta er alveg ótrúlega flókin og erfið staða. Það er miður þessi upplifun að borgin hafi ekki gert vel.“

mbl.is